Skagafjarðarhafnir kaupa dráttarbát

Kaup á dráttarbáti fyrir Sauðárkrókshöfn eru á lokametrunum en að sögn Dags Þórs Baldvinssonar hafnarstjóra er um að ræða Damen-bát frá árinu 2007, 20 metra langan og sjö metra breiðan með 28 tonna togkraft og tvær Caterpillar vélar sem knýja hann áfram, 1492 kw. „Með tilkomu dráttarbáts gjörbreytist allt öryggi innan hafnar og við getum þjónustað fraktskipin og fiskiskipin í flestum veðrum,“ segir Dagur Þór.
Sett verður á hafnsoguskylda í kjölfarið en þá þarf starfsmaður hafnarinnar undantekningalaust að fara í fraktskipin og lóðsa þau inn og út úr höfninni við komu og brottfarir.
Útboð á kaupum dráttarbáts fyrir Skagafjarðarhafnir fór fram í sumar sem leið. Að útboði loknu fóru hafnarstjóri og starfsmenn hafnarinnar og skoðuðu bát frá lægstbjóðanda. Á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Svf. Skagafjarðar í dag skýrði Dagur fundarmönnum frá því að umræddur bátur þyki vænlegur kostur fyrir verkefnið og að hafnarsvið Vegagerðarinnar og Ríkiskaup hafi þegar samþykkt kaupin.
Ef allt fer eins og ætlað er verður báturinn afhentur Skagafjarðarhöfnum í Greenock í Skotlandi í byrjun október en áætlað er að það taki fimm daga að sigla bátnum heim í Skagafjörð.