Skagafjarðarhafnir taka á móti nýja dráttarbátnum - Myndband

Dráttarbátur sá er Skagafjarðarhafnir hafa nýverið fest kaup á, kom til hafnar á Sauðárkróki í morgun. Að sögn Dags Þórs Baldvinssonar, hafnarstjóra, er um mikið öryggismál að ræða fyrir sjófarendur. Kemur báturinn til með að þjóna togurum og fraktskip innan hafnar sem utan en hingað til hafa trillur verið notaðar með misgóðum árangri.
Dráttarbáturinn er af Damen-gerð árgerð 2007, 20 metra langur og sjö metra breiður. Um borð eru tvær Caterpillar vélar og er togkraftur bátsins 28 tonn.
Í frétt Feykis frá því í september sagði Dagur að hafnsöguskylda yrði sett á í kjölfar komu dráttarbátsins en þá þarf starfsmaður hafnarinnar undantekningalaust að fara í fraktskipin og lóðsa þau inn og út úr höfninni við komu og brottfarir. Áhöfn bátsins verður í höndum hafnarvarða Sauðárkrókshafnar, auk vélstjóra sem á eftir að ráða en auglýst hefur verið eftir.
Blaðamaður Feykis fékk að slást í för með Drangeyjarferðum, Helga Rafni Viggóssyni og Eyþóri Jónassyni, sem ferjuðu Pálma Jónsson og Daníel Helgason, hafnarverði út í hinn nýja dráttarbát og sjá má á meðfylgjandi myndbandi.