Skin og skúrir í Síkinu þrátt fyrir tvo sigra Stólastúlkna

Eva Rún Dagsdóttir átti fína leiki fyrir Tindastól um helgina. MYND: HJALTI ÁRNA
Eva Rún Dagsdóttir átti fína leiki fyrir Tindastól um helgina. MYND: HJALTI ÁRNA

Það var tvíhöfði í Síkinu um helgina en lið Tindastóls fékk Grindavík b í heimsókn í 1. deild kvenna. Lið gestanna var á botni deildarinnar fyrir leikina, með 2 stig líkt og lið Hamars, og það varð engin breyting á því þar sem lið Tindastóls vann báða leikina og situr á toppi deildarinnar með 16 stig en hefur tapað þremur leikjum í vetur líkt og lið Fjölnis, ÍR og Keflavíkur b sem eiga leiki inni. Botnliðið gaf toppliðinu þó tvo hörkuleiki núna um helgina en Stólastúlkur nældu í tvo mikilvæga sigra og talsverða innlögn í reynslubankann.

 

Tindastóll – Grindavík b 70–55

Fyrri leikur liðanna fór fram um kvöldmatarleytið í gær að loknu jólahlaðborði Rótarýklúbbsins og tendrun ljósa á jólatrénu á Kirkjutorgi. Stólastúlkur fóru ágætlega af stað með Telmu Ösp í toppstandi. Lið Grindvíkinga mætti til leiks meðþunnskipaðan hóp, aðeins sjö leikmenn, en Árni Eggert rúllaði sínum stelpum vel í leiknum og fengu þær allar fullt af mínútum – nema Hildur Heba sem tók sér aðeins sex mínútur í að næla í fimm villur. Lið Tindastóls var fimm stigum yfir, 21-16, eftir fyrsta leikhluta og körfur frá Telmu Ösp og Evu Rún komu muninum í tíu stig upp úr miðjum öðrum leikhluta. Hera Sigrún og Eva bættu um betur áður en Grindvíkingar náðu loks að svara og í hálfleik var staðan 37-24.

Marín Lind skilaði nokkrum íleggjum niður af harðfylgi í upphafi síðari hálfleik og þristur frá Kristínu Höllu kom muninum í 19 stig. Það var því í raun alltaf ljóst að gestirnir úr Grindavík voru ekki að fara að gera einhverjar rósir í gær. Þær gáfust þó aldrei upp og áttu nokkur áhlaup og náðu til að mynda að minnka muninn í tólf stig, 51-39, áður en þriðja leikhluta lauk. Inga Sólvegi, sem var stigahæst Stólastúlkna í leiknum, hóf fjórða leikhluta með því að setja niður þrist og það var sama hverju og hvernig hún skaut á körfuna í gær, öll skotin rötuðu niður. Hún kom muninum að nýju í 19 stig snemma í fjórða. Eva Rún fór mikinn síðustu mínúturnar en það var síðan Inga Sólveig sem átti lokaorðið í leiknum, setti niður stökkskot. 

Lokatölur 70-55 í leik þar sem byrjunarlið Stólanna hafði í raun frekar hægt um sig á meðan bekkurinn blómstraði. Inga var atkvæðamest með tólf stig og sjö fráköst, Eva Rún og Marín Lind voru báðar með ellefu stig á um 15 mínútum og Tess skilaði tíu stigum. Allar stelpurnar skoruðu í leiknum, nema Hildur Heba sem var of snögg að ná fimm villum til að gefa sér möguleika á að skora. Leikur heimastúlkna var oft stórfínn og má merkja talsverðar framfarir í spili liðsins.

 

Tindastóll - Grindavík b 65–59

Liðin mættust svo öðru sinni kl. 13 í dag og virtust gestirnir hafa farið öfugum megin fram úr í morgun því það gekk hvorki né rak í fyrsta leikhluta. Marín Lind gerði fimm fyrstu stig Stólastúlkna og Telma byrjaði leikinn vel líkt og í gær en hún snéri sig eftir tæplega sjö mínútna leik og kom ekki meira við sögu. Þetta virtist setja heimastúlkur hálfpartinn út af laginu. Staðan var 15-6 að loknum fyrsta leikhluta  en lið Grindavíkur kom ákveðið til leiks í öðrum leikhluta og jafnaði fljótlega 18-18. Þá gerði Tess fimm stig í hvelli og Karen bætti við þristi og lið Tindastóls komið í 26-18. Það var hins vegar einbeitingarleysi í liði Tindastóls og virkaði hálfpartinn eins og stelpurnar væru búnar að vinna leikinn áður en hann byrjaði. Lið Grindavíkur nýtti færin sín vel á meðan Stólastúlkur klikkuðu í góðum færum. Staðan 30-28 í hálfleik.

Tess virtist eini leikmaður Tindastóls sem tók leikinn alvarlega í þriðja leikhluta og hún sá eiginlega ein til þess að gestirnir næðu ekki forystunni. Heimastúlkur voru þó skrefinu á undan í leikhlutanum og þristur frá Ingu Sólveigu kom þeim í 45-40 skömmu áður en þriðji leikhluti kláraðist. Lovísa Falsdóttir jafnaði leikinn, 45-45, í byrjun fjórða leikhluta og þá loksins kviknaði á varnarleik Tindastóls fyrir alvöru og Marín Lind fór að láta til sín taka á ný. Hún gerði ellefu stig í lokafjórðungnum og nokkrar körfur með mjög laglegum hætti eftir að hafa keyrt í gegnum vörn gestanna. Lið Grindavíkur var hins vegar aldrei langt undan. Staðan var 57-55 þegar þrjár mínútur voru eftir en fínn varnarleikur Kristínar Höllu var mikilvægur, hún varði fjögur skot í leiknum og flest á lokakaflanum. Stelpurnar voru aftur á móti oft klaufar að missa boltann út af í fráköstum og gáfu því gestunum færi á að koma sér betur inn í leikinn. Sömuleiðis fengu Grindvíkingar of margar auðveldar körfur þegar lið Tindastóls skilaði sér ekki í vörnina nógu hratt. Þessi mistök dugðu þó ekki gestunum. Eva Rún kom muninum í sex stig af harðfylgi þegar tæp mínúta var eftir og þá var sigurinn í höfn. Lokatölur 65-59.

Tess var öflug í liði Tindastóls en hún gerði 24 stig og tók tíu fráköst. Marín Lind gerði 17 stig  og Eva Rún og Karen Lind sjö stig hvor. Ingu Sólveigu gekk ekki jafnvel með skotin sín í dag og í gær en hún setti þó niður mikilvægan þrist og hirti tíu fráköst. Liðin fráköstuðu svipað, skotnýting sömuleiðis svipuð nema þegar kom að vítaskotum en lið Grindavíkur nýtti sín víti afar illa. Nýtingin var 53% í dag (8/15) sem var þó talsvert betri en í leiknum í gær en þá var hún 42% (10/24). Þetta reyndist gestunum dýrkeypt, sem og fjöldi tapaðra bolta í leiknum í dag, þar sem lið Tindastóls var ekki að spila vel. Fyrir Stólastúlkur var aðalatriðið að sjálfsögðu að vinna leikina og Árni Eggert nýtti hópinn sinn vel.

Næst eru það Haukar í bikarnum. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir