Söfnun vegna fjárskaða á Norðurlandi

Hleypt hefur verið af stokkunum fjársöfnun til stuðnings bændum vegna fjárskaða og tjóna er hlutust af óveðrinu á Norðurlandi í september. Verkefnið var kynnt í dag í húsakynnum Mjólkursamlags KS á Sauðárkróki í tengslum við að nú standa yfir svokallaðir Bændadagar í Skagafirði. Átta milljónum var heitið á fundinum frá Kaupfélagi Skagfirðinga og Landsbanka Íslands til söfnunarinnar.

Sérstök verkefnisstjórn hefur verið skipuð til að hafa umsjón með söfnuninni og móta reglur um hana og er skipuð þeim Guðna Ágústssyni fv. landbúnaðarráðherra sem jafnframt er formaður, Dagbjörtu Bjarnadóttur oddvita Skútustaðahrepps, Jóni Aðalsteini Baldvinssyni fv. vígslubiskupi á Hólum, Friðriki Friðrikssyni fv. sparisjóðsstjóra á Dalvík og Þórarni Inga Péturssyni formanni Landssamtaka sauðfjárbænda.

Guðni Ágústsson tekur við framlagi Kaupfélags Skagfirðinga úr höndum Bjarna Maronssonar stjórnarformanns félagsins.

Fram kom í ræðu Guðna Ágústssonar að vel færi á því að setja söfnunina af stað þar sem skagfirska efnahagskerfið blómstrar hvað best enda lagði KS fimm milljónir króna í söfnunina. Útibú Landsbankans á Sauðárkróki, Akureyri og á Húsavík lögðu hvert um sig eina milljón króna.

Inga Karlsdóttir útibússtjóri Landsbankans á Akureyri afhenti söfnuninni þrjár milljónir fyrir hönd útibúanna á Sauðárkróki, Akureyri og Húsavík.

Þeir sem vilja styðja við bakið á málefninu geta lagt framlög inn á reikning nr. 0161-15-380370, kt. 630885-1409, í Landsbankanum á Sauðárkróki.

Landssamtök sauðfjárbænda vænta góðra viðbragða fyrirtækja og einstaklinga enda ljóst að margir bændur hafa orðið fyrir miklu tjóni.

Fleiri fréttir