Steypustöðin með lægsta boð í lagningu hitaveitu í Hegranesi
Miðvikudaginn 3. apríl sl. voru opnuð tilboð í verkið „Hegranes vinnuútboð 2013, strenglögn og hitaveita“ á skrifstofu Skagafjarðarveitna að Borgarteig á Sauðárkróki. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á kr. 99.359.500,- m/vsk. en hún samanstendur af lagningu hitaveitu í Hegranesi og Hofsstaðaplássi austan vatna, ásamt strenglögn í Hegranesi fyrir RARIK.
Tvö tilboð bárust í verkið, það lægra frá Steypustöð Skagafjarðar ehf. að upphæð 85.429.890 sem er 86,0% af kostnaðaráætlun og hitt frá Vinnuvélum Símonar Skarphéðinssonar ehf. sem var litlu hærra eða að upphæð kr. 87.277.400,- sem er 87,8% af kostnaðaráætlun.
Að sögn Indriða Þórs Einarssonar sviðsstjóra veitu- og framkvæmdasviðs gera áætlanir ráð fyrir að lagningu hitaveitu í Hegranesi verði lokið í ár. Stefnt er að því að leggja í Hofsstaðaplássið í beinu framhaldi, jafnvel á næsta ári, en ákvörðun þar að lútandi liggur ekki fyrir að svo stöddu.
