Stólastúlkur sýndu góðan leik í sigri á Eyjastúlkum

Murr komin á ferðina að nýju. Þessi mynd er frá því í leik gegnum Blikum á dögunum. MYND: ÓAB
Murr komin á ferðina að nýju. Þessi mynd er frá því í leik gegnum Blikum á dögunum. MYND: ÓAB

Lengjubikarinn fór ekki vel af stað hjá Stólastúlkum í fótboltanum. Stórir skellir litu dagsins ljós gegn liðum Stjörnunnar og Blika, sem reyndar eru með tvö af sterkustu liðum Bestu deildarinnar, og það var því ánægjulegt að sjá lið Tindastóls næla í sigur gegn ÍBV í leik liðanna sem fram fór á Akranesi í dag. Stólastúlkur sýndu góða takta og unnu sanngjarnan sigur, 3-0.

Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 33. mínútu. Þá sendi Laufey Harpa hornspyrnu inn á markteig ÍBV þar sem Murr reis hæst og skallaði boltann í netið. Staðan 1-0 í hálfleik. Á 53. mínútu vann Hugrún boltann inni á eigin vallarhelmingi og brunaði af stað upp völlinn, sendi á Murr á hægri kantinum og hún sendi góðan bolta fyrir markið sem Melissa rétt missti af en boltinn hafnaði í varnarmanni Eyjastúlkna og fór þaðan í netið. Þegar um 20 mínútur voru eftir af leiknum unnu Stólastúlkur hornspyrnu eftir að varnarmenn ÍBV höfðu varist annarri hornspyrnu. Að þessu sinni sendi Hannah Cade fyrir markið og aftur skallaði Murr boltann neðst í bláhornið.

„Þetta var frábær leikur af okkar hálfu,“ sagði Donni þjálfari þegar Feykir spurði út í leikinn. „Okkar best spilaði leikur í vetur hingað til og stelpurnar áttu sigurinn fyllilega skilið. Murielle skoraði frábært mark i fyrri hálfleik eftir vel útfærða hornspyrnu frá Laufeyju Hörpu. Og við með öll völd á leiknum. Í síðari hálfleik bætti Murielle við marki eftir hornspyrnu, þá frá Hannah Cade, og svo urðu ÍBV fyrir því „óláni“ að skora sjálfsmark, þó eftir frábæra sókn okkar stelpna. Virkilega góður sigur, sterkt að halda hreinu og sóknarleikurinn góður.“

Næsti leikur Tindastóls er áætlaður 18. mars á Króknum en þá kemur lið Aftureldingar. Liðið á eftir að spila frestaðan leik gegn Keflavík á útivelli og reyndar eiga Stólastúlkur líka eftir að spila frestaðan leik í Kjarnafæðismótinu gegn liði Völsungs en hann er settir á 12. mars.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir