„Stund sem við munum aldrei gleyma“

Það var ekki laust við að það væru nokkur rykkorn í augum stolts þjálfara Tindastóls þegar Stólastúlkur fögnuðu í leikslok. MYND: ÓAB
Það var ekki laust við að það væru nokkur rykkorn í augum stolts þjálfara Tindastóls þegar Stólastúlkur fögnuðu í leikslok. MYND: ÓAB

„Ég átti klárlega von á vel gíruðu Tindastólsliði í leiknum. Vikan fram að leik var búin að gefa mjög góð fyrirheit og við fundum það á öllum hópnum að þær voru heldur betur harðákveðnar í að klára dæmið af krafti. Síðan svo sem fór það fram úr okkar draumum og leikmennirnir sem og stuðningsmenn gerðu þetta að stund sem við munum aldrei gleyma,“ segir Donni Sigurðsson, þjálfari kvennaliðs Tindastóls, sem bauð upp á eftirminnilega veislu á Sauðárkróksvelli í gær en liðið gjörsigraði lið ÍBV í leik þar sem áframhaldandi sæti í Bestu deildinni var í húfi.

Það voru örugglega nokkrir leikmenn sem voru að spila sinn besta leik í sumar akkúrat þegar mestu máli skipti. Murr, Beatriz, Laufey og Aldís svo dæmi séu tekin. Hvað varst þú ánægðastur með hjá liðinu í þessum leik og hvað segir þetta um leikmenn liðsins? „Það spiluðu klárlega allir leikmenn liðsins frábærlega í þessum leik og algerlega óhætt að segja að þetta sé mögulega einn okkar besti sigur í sögunni– allavega sá stærsti. Liðið var ótrúlega vel samstillt og brjálað góð orka í þeim. Ég var ánægðastur með hvernig hugarfarið var hjá þeim og svo var spilamennskan algerlega til fyrirmyndar. Þetta er algerlega stórkostlegt lið.“

Hannah Cade að spila sinn síðasta leik fyrir Stólastúlkur, hvað kemur til? „Hannah okkar ætlar að fara að snúa sér að námi núna og stefnan er sett á það á næstu árum. Við eigum eftir að sjá mikið á eftir henni því hún hefur verið hreint stórkostleg fyrir okkur, bæði innan sem utan vallar. Hannah er algerlega magnaður leikmaður og frábær liðsfélagi og hefur gert ótrúlega vel hér á Íslandi sem leikmaður. Við eigum eftir að sakna hennar mikið en vonum að allt gangi sem allra best hjá henni.

Lið Tindastóls heldur sæti sínu í Bestu deildinni. Hversu stórt er þetta og hvað þýðir þetta upp á framhaldið? „Það er risastórt afrek að halda sér i deildinni. Tindastóll er ennþá í uppbyggingarfasa sem félag og við sem lið. Það að halda sér i deildinni var mjög mikilvægt fyrir framtíðina og bæði þá leikmenn sem eru núna i liðinu en ekki síður fyrir þá ungu leikmenn sem eru að nálgast meistaraflokksliðið. Við eigum marga framtíðarleikmenn í félaginu og það styrkir allt starfið að vera í efstu deild og við munum halda áfram að byggja undir þær sterku stoðir heimakvenna sem eru í liðinu núna. Við erum bara rétt að byrja að byggja grunninn en núna er mikilvægt að halda áfram og þar þurfum við í raun ennþá meiri hjálp en endilega verið hefur. Aðstöðumál og umgjörð eru t.d. eitthvað sem væri hægt að aðstoða með í framhaldinu.“

Donni nefnir að árangur 2.flokks kvenna það sem af er sumri hafi verið frábær. „Ég er svakalega glaður hvað þær hafa vaxið i sumar. Það mót er ekki alveg búið ennþá en þær eiga möguleika á því að komast upp í A riðil 2. flokks mótsins og það væri mjög góður árangur. Eins hjá 3. flokknum sem endaði i A riðli í síðustu lotunni í sínu móti og þetta sýnir hvað við eigum mjög svo spennandi unga leikmenn sem eru að verða tilbúnar.“

Hversu ánægður ertu með sumarið og spilamennsku liðsins?Ég er algerlega himinlifandi með sumarið í heild sinni og lokaniðurstöðuna. Spilamennskan hefur verið vaxandi sem er frábært og gefur okkur vonandi flottan grunn fyrir næsta tímabil. Það tekur alltaf tíma að aðlagast breyttum kröfum sem það að fara upp um deild býður upp á. Efsta deild er töluvert sterkari en sú fyrir neðan og það tekur alltaf tíma að aðlagast en mér fannst við gera það vel heilt yfir. Við urðum fyrir miklum höggum í hópnum þegar við misstum út leikmenn sem spiluðu stórt hlutverk, bæði fyrir mót og í sumar, og þar má t.d. nefna Kristrúnu Maríu, Rakel Sjöfn, Bergljótu Ástu, Hrafnhildi Björns, Kristu Sól og fleiri. En leikmennirnir fylltu frábærlega í þessi skörð og til að mynda opnuðust tækifæri fyrir unga leikmenn sem nýttu tækifærið vel. Spilamennskan fór vaxandi eins og áður segir og við fórum aðeins meira í það að stjórna leikjum betur með boltann sem gleður alltaf augað meira. Ég er mjög stoltur af liðinu í heild sinni. Allir leikmenn stigu upp og bættu sig og við sem lið og félag erum á réttri leið. Nú er að halda áfram og gefa enn meira í á næsta og næstu árum,“ segir Donni og bætir við: „Takk fyrir stuðninginn í sumar og takk fyrir okkur. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir