Sýningin 1238: Baráttan um Ísland er til sölu
Í gær mátti sjá á heimasíðu 1238: Baráttan um Ísland að sýningin væri til sölu en rétt rúm sex ár eru síðan opnað var með pomp og prakt í nýuppgerðu húsnæði í Gránu og gamla samlaginu við Aðalgötuna á Sauðárkróki. Sannarlega metnaðarfull og glæsileg sýning sem jók fjölbreytnina í ferðaþjónustu á Norðurlandi vestra. Feykir hafði samband við Freyju Rut Emilsdóttur sem er framkvæmdastjór Sýndarveruleika ehf, sem meðal annars á og rekur sýninguna 1238 og spurði hana út í málið.
„Eftir sex ára ólgusjó í ferðaþjónustu, áskorunum tengdum heimsfaraldri og afleiðingum þess, eftir sex ár af velgengni, ótrúlegum árangri og verulegu framlagi til menningartengdrar ferðaþjónustu, ekki bara í Skagafirði heldur víða um lönd, stöndum við á krossgötum og tilkynnum sölu sýningarinnar 1238 á Sauðárkróki,“ segir Freyja Rut.
Hún segir ástæðuna fyrir þessari vendingu ekki vera vegna þess að verkefnið hafi staðið höllum fæti. „Þvert á móti. Árangurinn segir sína sögu, við höfum opnað gestasýningar 1238 í Reykjanesbæ, í Ungverjalandi og í Noregi. Gestafjöldi eykst ár frá ári og bókunarstaða fyrir næsta sumar er nokkuð góð. Okkur hefur verið boðið að flytja erindi á fjölda ráðstefna um alla Evrópu, bæði fyrir safna- og menningargeirann en líka innan nýsköpunargeirans.“ Freyja bendir á að 1238: Baráttan um Ísland hafi hlotið viðurkenningar á við Framúrskarandi verkefni SSNV, Sproti ársins hjá Markaðsstofu Norðurlands og Heritage in Motion á vegum evrópskra safnasamtaka auk fjölda annarra tilnefninga.
„Verkefnið er velheppnað uppbyggingar- og nýsköpunarverkefni innan ferðaþjónustu sem íbúar Skagafjarðar geta og ættu að vera stoltir af. Þegar forsvarsmenn sveitarfélagsins áttu frumkvæði að samstarfi við Sýndarveruleika ehf um uppbyggingu ferðaþjónustu sem heilsársatvinnugreinar var verkefninu alltaf ætlað að verða fyrsta skrefið. Við teljum að við höfum sýnt þannig árangur að nú sé rétt að gefa boltann til þeirra sem vilja taka næsta skrefið. Það er í eðli frumkvöðlastarfsemi þessi áhersla og vilji til að standa að uppbyggingu og nýsköpun og við erum að færa okkar áherslur á önnur slík verkefni.“
