Tælenskur réttur og pastasalat | Matgæðingar vikunnar

Mariko, Jói á móti og Íris Þóra. MYND AÐSEND
Mariko, Jói á móti og Íris Þóra. MYND AÐSEND

Matgæðingar í tbl. 29 að þessu sinni voru Jóhann Axel Guðmundsson og konan hans Mariko Morita og búa þau á Selfossi ásamt dóttur þeirra Írisi Þóru. Jóhann Axel er alinn upp á Fjalli í Sæmundarhlíð en vill meina að hann sé Varmhlíðingur og eini Skagfirðingurinn í sinni fjölskyldu, fæddur og uppalinn. Hin eru aðflutt aðkomufólk. Mariko er frá Hamamatsu í Japan en þaðan koma þau víðfrægu Yamaha hljóðfæri. Jóhann vinnur í Hveragerði hjá Ölverk og Mariko vinnur á Selfossi á Kaffi krús, endilega kíkið í kaffi. „Jæja, tvennt á boðstólum þessa vikuna, haldið ykkur,“ segir Jóhann hress. 

RÉTTUR 1
Pad Kra Pao - Tælandi

    600 g hakk - hvaða hakk sem er
    35 g saxaður hvítlaukur (einn heill, tveir er líka fínt)
    5 grænir tælenskir chilipiparar
    5 rauðir tælenskir chilipiparar (einnig kallað bird's eye chili. Hér ber að vara fólk við að setja allan piparinn, fyrir skemmra komna er ágætt að byrja á                  tveimur af hverju)
    50 g saxaðar gulrætur
    eitt búnt af ferskum basil
    45 g ostrusósa
    22 g fiskisósa
    20 g pálmasykur, eða bara sykur
    soðin hrísgrjón
    4 steikt egg

Aðferð: Blandið fiski- og ostrusósunum saman við sykurinn, leggið til hliðar. Steikið hvítlaukinn í olíu, passlega, því næst gulræturnar aðeins. Steikið hakkið  þar næst með hinu. Setjið sósurnar saman við þegar hakkið er næstum fullsteikt. Slökkvið undir og setjið saxað ferskt basil saman við. Allt endar þetta í  skál með hrísgrjónum og eggi ofan á.

RÉTTUR 2
Pastasalat

    Soðið pasta, þetta klassíska beina

    heil agúrka, skorin í bita

    heill pakki af skinku, skorin smátt

    smátt skorinn laukur í strimlum, má sleppa

    passlegt magn af Kewpie mæjói

Aðferð: Sjóðið pasta, leyfið því að kólna, og kælið í ísskáp. Blandið svo öllu saman, þegar pastað er orðið kalt.

RÉTTUR 3
Bónusuppskrift – Klassískir Mummar

    Lambarifjur, sem sagt bara rifjabitar, afsagað af skrokki. Fæst í haust í kjötborði KS, ef þessi uppskrift slær í gegn. Fyrstir koma fyrstir njóta.
    500 g smjörlíki
    kryddið að smekk

Aðferð: Steikið á pönnu, harðsteikt er best. Gott með kartöflum.

Njótið!

„Til að viðhalda hinu skagfirska og alþjóðlega, tilnefnum við Mariko og Íris Þóra gamlan vin minn frá Frostastöðum og konu hans, Þorgeir Frey Sveinsson og Önnu Icban sem næstu matgæðinga. Ég veit að Anna eldar góðan mat. Þorgeir er ágætur veiðimaður.“

Fleiri fréttir