„Þau eru ein af ástæðum þess að það er gott að búa í Skagafirði“

Árni eftir viðtöku Samfélagsverðlauna Skagafjarðar 2024. MYND: ÓAB
Árni eftir viðtöku Samfélagsverðlauna Skagafjarðar 2024. MYND: ÓAB

Við setningu Sæluvikunnar í dag voru afhent Samfélagsverðlaun Skagafjarðar 2024 en verðlaunin eru þakklætisvottur samfélagsins til einstaklinga, fyrirtækja stofnana eða félagasamtaka sem þykja hafa staðið sig vel í eða efla skagfirskt samfélag. Að þessu sinni voru það hjónin Ragnheiður Ásta Jóhannsdóttir og Árni Björn Björnsson, oft kenndur við Hard Wok Café, sem hlutu viðurkenninguna.

Íbúar í Skagafirði geta tilnefnt þá sem þeim þykja eiga Samfélagsverðlaunin skilin og þurfa að rökstyðja tillögur sínar.

Það var Eyrún Sævarsdóttir frá atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd sem afhenti verðlaunin og í hennar máli kom fram að í rökstuðningi með tilnefningum hafi m.a. verið sagt: „Þau hjónin eru einstakar fyrirmyndar í samfélaginu okkar. Þau styðja dyggilega við íþróttastarfið í Skagafirði og eru ávallt fyrst til að bjóða fram hjálp þegar einhver þarf á að halda og hafa þau margoft staðið fyrir söfnunum fyrir fjölskyldur og fyrirtæki í neyð. Með dugnaði, frumkvæði, hjálpsemi, samhyggð og góðu hjartalagi stuðla þau einnig að samheldni í samfélaginu okkar. Þau eru ein af ástæðum þess að það er gott að búa í Skagafirði og við getum verið stolt af því að tilheyra svo frábæru samfélagi því þau hvetja okkur hin til að verða betri einstaklingar.“

Fjölmargar tilnefningar bárust atvinnu-, menningar- og kynningarnefnd.

Þess má geta að Ragnheiður Ásta er ættuð frá Mýrarkoti út að austan og er ráðgjafaþroskaþjálfi og starfar sem deildarstjóri námsaðlögunar á leikskólanum Ársölum á Sauðárkróki. Árni er aftur á móti Grindvíkingur og rekur Hard Wok Café. Ragnheiður var að syngja með Skagfirska kammerkórnum í Eyjafirði í dag og var því ekki viðstödd þegar verðlaunin voru afhent en Árni mætti kátur og hress.

Feykir óskar Ragnheiði Ástu og Árna Birni til hamingju með heiðurinn!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir