Þegar Norðurlandi var lokað

Bændur í Alberta bera grímur til að smitast ekki haustið 1918. MYND AF NETINU
Bændur í Alberta bera grímur til að smitast ekki haustið 1918. MYND AF NETINU

Ýmislegt hefur verið nefnt til sögunnar sem möguleiki í baráttunni gegn útbreiðslu og smitleiðum COVID-19 kórónaveirunnar og þar á meðal er að setja heilu landshlutana eða byggðarlögin í sóttkví. Þetta gerði Jónas Kristjánsson, læknir á Sauðárkróki, í félagi við fleiri lækna á Norðurlandi, árið 1918 í baráttunni við hina illræmdu spænsku veiki sem er talin hafa lagt að velli um 50 milljón manns og þar af um 484 Íslendinga.

Spænska veikin var inflúensufaraldur sem gekk yfir heiminn árin 1918-19 og er mannskæðasta farsótt sem sögur fara af.

Á Wikipediu segir: Veikin er talin hafa borist til Íslands með skipunum Botníu frá Kaupmannahöfn og Willemoes frá Bandaríkjunum 19. október 1918, þann sama dag og fullveldi Íslands var samþykkt. Í byrjun nóvember höfðu margir tekið sóttina og þá er fyrsta dauðsfallið skráð. Miðvikudaginn 6. nóvember er talið að þriðjungur Reykvíkinga hafi veikst. Fimm dögum síðar er talið að tveir þriðju íbúa höfuðborgarinnar hafi verið rúmfastir. 

Sérstök hjúkrunarnefnd var skipuð í Reykjavík 8. nóvember undir forystu Lárusar H. Bjarnasonar lagaprófessors og var gerð áætlun þar sem borginni var skipt í þrettán hverfi. Gengið var í hús til að leita að þeim sem voru hjálpar þurfi. Allt athafnalíf lamaðist í Reykjavík. Talið er að 484 Íslendingar hafi látist úr spænsku veikinni, þar af 258 í Reykjavík. Þann 20. nóvember voru þeir sem létust í sóttinni jarðsettir í fjöldagrafreitum. Þá var veikin tekin að réna.

Í Sögu Sauðárkróks (síðara bindi 1. hluta) segir að Jónas hafi fengið í „...lið með sér Steingrím Matthíasson lækni á Akureyri, Ólaf Gunnarsson á Hvammstanga og fleiri lækna á Norðurlandi til þess að friða Norðurland fyrir spönsku veikinni, eiginlega gegn fyrirmælum landlæknis, sem búinn var að gefa upp alla von um vörn vegna hins eftirminnilega hraða, sem hún greip um sig með ... á Suðurlandi og þeirrar lamandi skelfingar, sem hún leiddi yfir Reykjavík og aðra staði þar sem hún geisaði.“

Jónas taldi trú í fólkið, taldi að það að loka Norðurlandi gæti gefið góða raun en lækninum varð „...snemma ljóst, til hverra ógna það myndi draga, ef pestin næði tökum á mörgum heimilum út um dreifðar byggðir sveitanna, þar sem hver maður og kona eru hlaðin nauðsynjastörfum, sem verða að leysast hvert á sínum tíma hvers dags ... Hann setti upp margfaldar varnarlínur til þess, ef sú fremsta bilaði þá skyldi vágesturinn stöðvast við þá næstu. Vörður var settur norðan og sunnan Holtavörðuheiðar, austan og vestan Stóravatnsskarðs, austan og vestan Litlavatnsskarðs, austan og vestan Kolugafjalls, austan og vestan Öxnadalsheiðar og austan og vestan Heljardalsheiðar.“

Þessar tilraunir báru góðan árangur. Hvort aðgerðir sem þessar séu raunhæfar nú á dögum skal ósagt látið; heimurinn er talsvert minni í dag en hann var í upphafi 20. aldar og fólkið fleira og ferðast um allar trissur á örskots hraða. Aftur á móti er heimurinn talsvert betur búinn til að berjast við svona vágest í dag og lykilatriði að fara eftir leiðbeiningum landlæknis og almannavarna í þeirri baráttu.

Sjá nánar um COVID-19 > covid.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir