Þriggja mínútna kafli í fjórða leikhluta fór með leikinn
Tindastóll spilaði við Stjörnuna í Garðabæ í gærkvöldi í Lengjubikarnum. Stólarnir voru að spila ágætlega gegn sterkum andstæðingi, voru yfir 42-41 í leikhléi en fjórði leikhluti var eign heimamanna og urðu lokatölur 102-80.
Jafnræði var með liðunum allan fyrri hálfleik og skiptust þau á um að hafa forystuna. Tindastólsmenn áttu fínan sprett um miðjan annan leikhluta þar sem þeir gerðu 10 stig í röð, breyttu stöðunni úr 28-27 í 28-37 og voru það Svabbi, Pálmi og Loftur Páll sem gerðu stig liðsins á þessum kafla. Justin Shouse fór fyrir Stjörnumönnum sem náðu að minnka muninn í eitt stig fyrir hlé. Staðan 41-42 fyrir Tindastól.
Hart var barist í þriðja leikhluta. Stólarnir höfðu yfirhöndina framan af en Stjarnan klóraði í bakkann og komst yfir þegar á leið. Munurinn þó aðeins tvö stig, 66-64, þegar fjórði leikhluti hófst. Þegar tvær mínútur voru liðnar af honum minnkaði Svabbi muninn í 72-68 og á næstu 150 sekúndum gerðu Stjörnumenn 18 stig á meðan Stólarnir gerðu ekki neitt, staðan skyndilega orðin 90-68. Geim óver! Lokatölur urðu síðan sem fyrr segir 102-80.
Stigahæstir hjá Stólunum voru Svabbi með 19 stig og Rikki með 16. Kanarnir voru ekki sérlega sprækir í stigaskorinu í gær, gerðu samtals 20 stig en Miller tók þó 9 fráköst og átti 10 stoðsendingar. Stólarnir tóku 36 fráköst á meðan Stjarnan hirti 50 og þá hittu Stólarnir úr 12 af 19 vítaskotum sínum en Stjarnan 25 af 26 skotum sínum.
Stig Tindastóls: Svabbi 19, Rikki 16, Miller 12, Hampton 8, Helgi Rafn 8, Pálmi Geir 7, Helgi Freyr 5, Hreinsi 3 og Loftur Páll 2.