Þúsund þátttakendur skráðir á Þjóðfund um stjórnarskrá Íslands
Þúsundasti þátttakandinn staðfesti komu sína á Þjóðfund um stjórnarskrá Íslands kl.15:30 í dag. Þar með er fundurinn fullmannaður en vonast er til þess að ekki verði mikið um forföll. Þjóðfundurinn verður haldinn laugardaginn 6. nóvember n.k. í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Þátttakendur voru valdir af handahófi úr þjóðskrá þar sem gætt var að eðlilegri skiptingu þeirra eftir búsetu og kyni. Á næstu dögum munu allir þátttakendur fá sent bréf ásamt stjórnarskrá lýðveldisins.
Jafnmargar konur eru skráðar á fundinn og karlar. Aldur gesta endurspeglar aldursdreifingu í landinu. Elsti þátttakandi á Þjóðfundi er fæddur 1921, en 14 eru fæddir fyrir árið 1930. Yngstu gestirnir eru fæddir 1992 verða þeir 22 talsins.
Á þjóðfundinum verður kallað eftir meginsjónarmiðum um stjórnskipan landsins og stjórnarskrá og endurskoðun á henni. Fundurinn er undanfari stjórnlagaþings, en kosningar til þess fara fram 27. nóvember. Framboðsfrestur rennur út á hádegi mánudaginn 18. október.
Stjórnlaganefnd mun vinna úr upplýsingum sem safnast á Þjóðfundi og afhenda stjórnlagaþingi þegar það kemur saman í febrúar 2011.
Guðrún Pétursdóttir formaður stjórnalaganefndar:
,,Það er ánægjulegt að sjá að þegar hefur tekist að manna Þjóðfundinn, þótt enn séu þrjár vikur til stefnu. Fjöldi fólks hefur þegar ákveðið að bjóða sig fram til stjórnlagaþingsins og við finnum að áhugi og skilningur á þessu merka verkefni vex óðum.“
Frambjóðendum til stjórnlagaþings býðst að kynna sig í stuttu máli á fésbókarsíðu stjórnlagaþings. Stjórnarskrárfélagið stendur einnig að síðu á Wikipedia þar sem birt eru nöfn og vefslóðir frambjóðenda til stjórnlagaþings. Upplýsingar um Þjóðfund um stjórnarskrá Íslands er að finna á: www.thjodfundur2010.is og á www.stjornlagathing.is