Tiernan með fjögur í öruggum sigri á Álftnesingum

Vigdís Edda fer framhjá leikmanni Álftaness sem ákvað að brjóta einu sinni sem oftar í leiknum. MYND: ÓAB
Vigdís Edda fer framhjá leikmanni Álftaness sem ákvað að brjóta einu sinni sem oftar í leiknum. MYND: ÓAB

Kvennalið Tindastóls hélt áfram frábæru gengi í 2. deild kvenna í gærkvöldi þegar lið Álftaness mætti á gervigrasið á Króknum. Lið Álftnesinga hafði fyrr í sumar borið sigurorð af Stólastúlkum, 2-1, þar sem stelpurnar voru klaufar að tapa en í gærkvöldi sáu gestirnir aldrei til sólar því lið Tindastóls var mun sterkara og sigraði örugglega 4-0 þar sem Murielle Tiernan gerði öll fjögur mörkin.

Það varð fljótt ljóst að stelpurnar voru harðákveðnar í að sækja stigin þrjú sem í boði voru og tryggja stöðu sína á toppi 2. deildar. Þær unnu baráttuna um allan völl á meðan Álftnesingar komu varla boltanum yfir miðju. Það var því afar sanngjarnt þegar Tiernan gerði fyrsta mark leiksins strax eftir 15. mínútur. Hún bætti öðru marki við á 28. mínútu og fullkomnaði þrennuna rétt fyrir leikhlé.

Lið Álftaness virtist ætla að bíta í skjaldarrenndur í síðari hálfleik og blésu til sóknar sem endaði með því að Bryndís Rut vann boltann og sendi góða sendingu fram völlinn og Tiernan fullkomnaði leik sinn með fjórða marki sínu. Eftir þetta var ljóst að gestirnir áttu enga leið til baka inn í leikinn. Leikurinn jafnaðist nokkuð eftir því sem leið á en það voru áfram Stólastúlkur sem voru að fá betri færin en þeim tókst ekki að bæta við mörkum.

Það var mjög gaman að fylgjast með liði Tindastóls í gær og eins og staðan er á stelpunum núna virðist hreinlega ekkert gaman að spila á móti þeim. Þær eru kraftmiklar, grjótharðar, duglegar og með bullsjóðandi sjálfstraust. 

Stólastelpurnar með sterka liðsheild

Liðsheildin er í raun alveg prýðileg. Bryndís Rut fyrirliði fer fyrir sínu liði í miðju varnarinnar með góðu fordæmi, einbeitt og með virkan talanda. Við hliðina á henni er Guðrún Jenný traust en hún var að spila sinn 100. leik fyrir Stólana í gær. Í bakvarðarstöðunum eru Kristrún María og Laufey Harpa öruggar með spretthlauparana Vigdísi Eddu og Hugrúnu sprækar fyrir framan sig á köntunum.

Inni á miðjunni styrkja þær hvor aðra Hrafnhildur og María Dögg; Hrafnhildur vel spilandi og róleg á boltanum en María eldsnögg og sterk og vinnur hvern boltann af öðrum. Gammarnir frammi eru svo Krista Sól og Muielle Tiernan en sú bandaríska er stór og sterk, heldur boltanum vel og kemur honum í spil en hún er búin að skora 19 mörk í 12 leikjum í sumar sem er frábært. Hin 16 ára Krista Sól verður síðan betri með hverjum leiknum; vinnusöm og snörp, sítæklandi og teknísk. Í markinu í gær var Margrét Ósk sem er að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki og verður öruggari með hverjum leiknum. Á bekknum eru síðan nokkrir reynsluboltar í bland við ungar og efnilegar.

Að sjálfsögðu er liðið ekki fullkomið og spilar þar kannski mest inn í aðstöðuleysið sem hrjáð hefur fótboltaiðkendur á Króknum lengi og sennilega ekki nógu markvissa yngri flokka þjálfun. Þannig virðist leikmenn Tindastóls, bæði stelpur og stráka, oft skorta tækni og leikskilning en með nýjum heilsársvelli horfir vonandi til betri vegar í þessum efnum.

Barátta á milli Tindastóls og Augnabliks

Baráttan um toppsætið í 2. deild virðist ætla að verða á milli Tindastóls og Augnabliks úr Kópavogi en lið Tindastóls er með 27 stig að loknum ellefu leikjum en Augnablik er með 21 stig eftir níu leiki. Þær Kópavogsstúlkur gætu því náð Stólastúlkum að stigum ef allt gengur upp hjá þeim. Bæði liðin hafa hingað til tapað tveimur leikjum en liðin mætast í síðustu umferð á Sauðárkróksvelli. Það gæti orðið hreinn úrslitaleikur um efsta sætið en eftir því sem Feykir kemst næst fara tvö lið upp í 1. deild og staða Stólanna því góð í dag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir