Ungu fólki fækkar hratt á Norðurlandi vestra

Nú í byrjun febrúar fundaði stjórn Byggðastofnunar ásamt starfsmönnum með fulltrúum Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi Vestra, SSNV, en Byggðastofnun og SSNV hafa með sér samning um starf á sviði atvinnu- og byggðaþróunar á starfssvæði SSNV.  Á fundinum fengu stjórnarmenn í Byggðastofnun upplýsingar um stöðu atvinnulífs á svæðinu auk þess sem rætt var almennt um stoðkerfi atvinnulífsins og hlutverk stofnunarinnar og sveitarfélaga í því. 

Atvinnulíf á Norðurlandi Vestra byggist að miklu leiti á frumframleiðslugreinunum landbúnaði og sjávarútvegi en í þeim greinum hefur störfum fækkað mikið. Fæðingarorlofssjóður, Greiðslustofa atvinnuleysistrygginga og Innheimtumiðstöð sekta hafa verið flutt inn á svæðið á síðustu árum en á sama tíma hefur öðrum störfum á vegum hins opinbera fækkað.

Fulltrúar SSNV létu í ljósi áhyggjur af þróun mála en mikil fólksfækkun hefur orðið á Norðurlandi vestra á undanförnum árum og er árið 2011 þar engin undantekning. Sérstakar áhyggjur vekur sú þróun að ungu fólki fækkar hratt sem og börnum á skólaaldri.

Samkvæmt lögum um Byggðastofnun er hlutverk hennar að fylgjast með þróun byggðar í landinu og vinna að eflingu byggðar og atvinnulífs á landsbyggðinni. Stofnunin skipuleggur og vinnur að ráðgjöf við atvinnulífið á landsbyggðinni í samstarfi við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og aðra.

/Byggkornið

Fleiri fréttir