Upprennandi skagfirskir uppfinningamenn

Skagfirskir nemendur komust til úrslita með uppfinningu sína í Nýsköpunarkeppni grunnskólanemenda á dögunum. Um er að ræða keppni í nýsköpun fyrir alla aldurshópa grunnskólans en tilgangur keppninnar er að virkja sköpunarkraft barna og unglinga í landinu. 

Af þeim 39 nemendum sem komust til úrslita voru fimm nemendur úr Skagafirði. Tveir þeirra voru úr Árskóla, þau Gunnar Ásgrímsson með uppfinningu sína Jólaseríu hjálpari og Lára Vilhelmsdóttir með svokallaða Ljósmoppu. Tveir nemendur úr Grunnskólanum austan vatna, þau Ólöf Birna Andradóttir með Fjölbreyttu uppskriftabókina og Stefanía Malen með svonefnda Stigastöng. Einnig komst Hrafnhildur Gunnarsdóttir úr Varmahlíðarskóla áfram með uppfinningu sína Gaddasvamp.

Þeir nemendur sem komust áfram verður svo boðið í vinnusmiðju sem fer fram í Háskólanum í Reykjavík, dagana 8. - 9. september nk. Markmið Vinnusmiðjunnar er að hver keppandi fái tækifæri til að útfæra hugmynd sína nánar. Að því loknu tekur verðlaunanefnd við og vinna stigahæstu hugmyndirnar til verðlauna. Lokahóf verður svo haldið í Marel sunnudaginn 11. september.

Nánar má sjá um keppnina hér.

Fleiri fréttir