Uppselt á Ásbirningablót

Sögudagur og Ásbirningablót sem félagið Á Sturlungaslóð hélt í fimmta sinn á laugardaginn tókst ljómandi vel, að sögn Kristínar Jónsdóttur sem er einn af forsvarsmönnum félagsins. Þátttakendur fóru hringinn í Hegranesi undir leiðsögn Þórs Hjaltalín minjavarðar og um kvöldið var haldið Ásbirningablót í Kakalaskála.

Að sögn Kristínar tóku um fimmtíu manns þátt í hringferðinni um Hegranes, og var komið við á Hegranesþingstað, í Ási, fyrrum höfuðbóli Ásbirninga og endað í Keldudal þar sem miklar fornminjar hafa fundist.

Uppselt var á Ásbirningablótið og biðlisti eftir miðum. Þar stýrði Sigurður Hansen á Kringlumýri veisluhaldi en Bjarni Harðarson bóksali á Selfossi flutti erindi og Skúli Gautason, menningarfulltrúi Hörgárbyggðar, og Þórhildur Örvarsdóttur fluttu gamanmál. Ólöf Ólafsdóttir og Friðrik Jónsson voru með tónlistaratriði og allt fór þetta ljúflega með veitingum í miðaldastíl frá Hótel Varmahlíð. Að sögn Kristínar er þetta fín þátttaka, betri en í fyrra og segir hún verkefni og viðburði Sturlungaslóðar smám saman vera að spyrjast út.

Mynd: BÞ

Mynd: BÞ

 

Mynd: BÞ

Fleiri fréttir