Úrbætur á smábátahöfn vísaðar til byggðaráðs til samþykktar
Smábátahöfnin á Sauðárkróki var til umræðu á fundi umhverfis- og samgöngunefndar Svf. Skagafjarðar sl. fimmtudag. Þar kom fram að notendur svokallaðra viðlegufingra 1-2 og 3, næst landi við 80 metra flotbryggju, hafa kvartað undan því að þröngt sé á milli enda 60 metra flotbryggju og viðlegufingra á öldubrjót og að nánast sé útilokað sé að leggjast að fingrunum ef eitthvað er að veðri vegna þessara þrengsla.
Í fundargerð nefndarinnar segir að farið var þess á leit við verktaka sem sá um framleiðslu og niðursetningu á flotbryggjum í fyrra að koma með tillögu að úrbótum vegna þessa. Fyrirtækið, KrÓli ehf., hefur nú gert höfninni tilboð í flutning á fremstu einingu á fingurbryggju á syðsta landstöpulinn og jafnframt boðið styttri einingu í stað þeirrar sem yrði flutt.
Í fundargerð kemur einnig fram að nýting á viðleguplássum hafi verið mjög góð á síðasta ári þar sem upp undir 90% af plássi hafi verið nýtt, 30 pláss sem heilsársviðlegur og 12 pláss í mánaðarleigu.
„Nefndin samþykkir fyrir sitt leyti að gengið verði að fyrirliggjandi tilboði frá KrÓla ehf. og að verkefnið verði fjármagnað með eigin fé Hafnarsjóðs. Nefndin vísar málinu til Byggðaráðs til samþykkis,“ segir loks í fundargerð.