Útafakstur í Blönduhlíð
Ökumaður slapp lítið meiddur er jeppabifreið hans lenti utanvegar í mikilli hálku í Blönduhlíð í Skagafirði í gær. Ungabarn var í bílnum en slapp við meiðsli.
Að sögn lögreglunnar á Sauðárkróki má þakka það góðum öryggisbúnaði að barnið slapp án meiðsla. Nokkuð hefur verið um útafakstur í vetur og mun ástæðan vera mikil hálkumyndun þegar hitastigið er í kringum frostmark og glæra myndast á veginum og vill Lögreglan hvetja vegfarendur til að fara varlega um Blönduhlíðina en þar vill oft myndast glæruhálka.