Verður frá vinnu í einhverjar vikur

Mikil mildi þykir að maðurinn missti ekki fingurinn við árásina.

Lögreglumaðurinn sem í fyrrinótt var bitinn illa í fingurinn verður frá vinnu í einhverjar vikur. Hann er með stanslausan verk í fingrinum en sökum þess hve nálægt naglaböndum bitið var reynist ekki hægt að sauma fingurinn saman.
-Eftir því sem mér skylst þá er húðin þarna svo þunn að það er ekki hægt að sauma í hana. Þetta verður því bara að gróa að sjálfu sér, segir lögreglumaðurinn. -Ég fékk stífkrampasprautu og er á sýklalyfjum en læknar segja mér að fingurin verði aldrei samur, bætir hann við. Fingur mannsins er brotinn eftir bitið.
Lögreglumaðurinn hefur verið í lögreglunni í 9 ár en segist aldrei hafa lent í viðlíka atviki. Hann vill meina að ofbeldi gagnvart lögreglunni sé að harðna og árásir á lögreglumenn, heilt yfir landið,  verði stöðugt ósvífnari.

Aðdragandi bitsins var sá að lögreglan var kölluð að skemmtistaðnum Mælifelli aðfaranótt sunnudags en þá lá maður meðvitundarlaus á götunni. Annar maður var þá handtekinn og lét maðurinn ófriðlega. Eftir að hafa sett manninn í járn og inn í bíl tók maðurinn að sparka framm í bílinn þannig að lögreglumaðurinn fór út og aftur í bíl til þess að fá manninn til þess að sitja í sætinu. -Þegar við höfðum náð fótum hans aftur í bílinn ætlaði hann að stinga sér út úr bílnum og þar sem maðurinn var handjárnaður sýndist mér stefna í að hann steyptist með höfuðið á undan niður á götuna. Ég fór því í að hagræða manninum og koma honum inn í bílinn aftur.  Einhvern veginn náði hann þá að bíta í fingurinn á mér og þar sem ég var illa staðsettur, hélt honum nánast uppi, gat ég  mér litla björg veitt. Hann sleppti því ekki fyrr en um það bil hálfri mínútu síðar og hafði þá því sem næst bitið stykki framan af fingrinum á mér. Það var bara heppni að ég var í hönskum sem síðan aftur varð líklega til þess að hann náði ekki að bíta fingurinn af.

Maðurinn verður kærður fyrir líkamsáras ásamt ofbeldi gagnvart lögreglumanni.

Fleiri fréttir