Víðismenn höfðu betur í Garðinum

Stólarnir biðu lægri hlut í gær – þessi mynd er hinsvegar úr síðasta sigri Stólanna þegar þáverandi topplið deildarinnar mátti þola tap á Króknum. MYND: ÓAB
Stólarnir biðu lægri hlut í gær – þessi mynd er hinsvegar úr síðasta sigri Stólanna þegar þáverandi topplið deildarinnar mátti þola tap á Króknum. MYND: ÓAB

Tindastóll sótti Víðismenn heim í Garðinn í gærkvöldi og var leikið á Nesfisk-vellinum en 15. umferðin í 2. deild karla hófst einmitt í gær. Bæði lið eru að berjast fyrir sæti sínu í deildinni og það var mikilvægt fyrir Stólana að ná hagstæðum úrslitum. Það hafðist því miður ekki því lokatölur voru 2-0 Garðbúum í hag.

Um miðjan fyrri hálfleik varð þjálfari Tindastóls, Bjarki Már, fyrir því óhappi að setja boltann í eigið mark og staðan 1-0 í hálfleik. Þegar svo um stundarfjórðungur var til leiksloka bætti Mehdi Hadraoul við marki fyrir Víðismenn og þar við sat.

Við þessi úrslit vænkaðist hagur Víðismanna í deildinni eins og nærri má geta en staða Stólanna versnaði til muna. Liðið er nú í 11. sæti með 11 stig en Leiknir Fáskrúðsfirði er með 12 stig í 10. sæti. Huginn er sem fyrr á botninum eftir tap gegn Hetti Egilsstöðum í gær og þar með styrkti Höttur stöðu sína í fallslagnum.

Næsti leikur Tindastóls er gegn toppliði Kára frá Akranesi hér heima föstudaginn 17. ágúst. Það er svo sem engin ástæða fyrir Tindastólsmenn að örvænta, þeir hafa áður unnið topplið deildarinnar hér heima í sumar og á góðum degi getur margt gott gerst hjá liðinu. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir