Græna tröllið Shrek á svið Bifrastar í kvöld

Stór hópur þeirra sem að sýningu Shrek koma en einhverja gæti vantað, hver veit. Mynd: PF.
Stór hópur þeirra sem að sýningu Shrek koma en einhverja gæti vantað, hver veit. Mynd: PF.

Í kvöld frumsýnir 10. bekkur Árskóla á Sauðárkróki leikritið Shrek sem fjallar um samnefnt tröll sem þekkt er úr heimi teiknimyndanna. Leikstjóri er Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir og henni til halds og trausts er Eysteinn Ívar Guðbrandsson en þau mæðgin eru einnig handritshöfundar.

„Við settumst niður og skrifuðum handrit upp úr fyrstu tveimur myndunum og leikhópurinn hefur einnig komið að því að búa til mikið af skemmtilegum hlutum sem komu á æfingum. Þannig að það má segja að við tvö og leikhópurinn séum höfundar verksins,“ segir Silla af mikilli hógværð.

Fjöldi persóna koma við sögu og segja þau Silla og Eysteinn að næstum allir í hópnum stígi á svið en allir koma að uppsetningunni með einhverjum hætti. „Það eru nokkrir leikarar sem leika fleiri en eina persónu en þær eru yfir 20 í heildina.“

Silla vill vekja athygli á því að starfsfólk Árskóla komi mikið að öllum sýningum sem skólinn setur upp og má þar m.a. nefna smiði, búningahönnuði, sminkur og propsara. „Þetta er svo hæfileikaríkt starfsfólk sem Árskóli á og svo er bara það að börnin sem alast upp við það að fá að koma fram frá því í fyrsta bekk þá er leikhúsuppeldi og listir kannski að fá meira vægi hér en í mörgum öðrum skólum,“ segir Silla sem kennir leiklist á unglingastigi og tónlist hjá yngsta stigi Árskóla.

En um hvað fjallar leikritið?
„Þetta fjallar um tröllið Shrek sem fær óvænta heimsókn ævintýrapersónu og fær beiðni um að bjarga Fíónu prinsessu frá dreka,“ segir Eysteinn og bætir við leyndardómsfullur: „Svo má náttúrulega ekki segja meir, þú verður bara að mæta!“

Generalsýning fór fram í morgun og forsýning verður klukkan fimm í dag áður en hin eiginlega frumsýning hefst klukkan átta í kvöld. Þau mæðgin segja sýninguna vera fyrir alla fjölskylduna, unga sem aldna og mikið af fullorðinshúmor. „Þetta er mjög húmorískt leikrit, fjölbreytt og skemmtilegt allan tímann. Það eru ekki löng atriði þannig að það á að vera auðvelt að vera með yngri börn á sýningunni sem er rúmur klukkutími með hléi,“ segir Silla.

Eysteinn vinnur í Húsi frítímans en hann aðstoðar móður sína af miklum áhuga enda alinn upp í leikhúsinu. „Það má eiginlega segja að móðir mín hafi platað mig með sér í þetta verkefni. Ég náttúrulega stökk á það enda mikill leiklistarunnandi og áhugamaður og svo finnst mér bara gaman að vinna með mömmu!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir