Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps með tónleika í Miðgarði

Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps blæs til vortónleika í Menningarhúsinu Miðgarði nk. mánudagskvöld kl. 20:30. „Ég hef verið að safna lögum og ljóðum eftir heimamenn og hef útsett það og höfum verið æfa hluta af því,“ segir Skarphéðinn Einarsson, stjórnandi kórsins.

Hann segir að mikið húllum hæ verði þegar kórinn fagnar 100 ára afmæli sínu 2025 því þá verði mikið af heimagerðri músík. Þegar Skarphéðinn er spurður hve fjölmennur kórinn sé segir hann svolítið erfitt að kasta tölu á það þar sem mjög margir hafi verið á Tene í vetur. „Við erum svona 35 þegar best er mætt. Þetta eru mest bændur úr héraði en það eru einnig að koma ungir menn sem eru að feta fyrstu skrefin, áhugasamir strákar.“

Skarphéðinn segir að Covid hléið hafi ekki hjálpað til því það hafi verið býsna þungt eftir það að koma starfseminni af stað. Þá sé kórinn bundinn af því að margir bændur eru frákúplaðir frá því að sauðburður hefst og framyfir sláturtíð. 
En þrátt fyrir stuttan æfingatíma er kórinn í góðri æfingu og lofar Skarphéðinn mikilli stemningu í Miðgarði og skemmtilegum tónleikum.

Hér fyrir neðan er upptaka frá tónleikum kórsins í Blönduóskirkju í febrúar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir