Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps náði loks að blása til mannfagnaðar

Halldór Maríasson, Stefán Jósefsson, Guðmundur Valtýsson, Benedikt Blöndal, Magnús Sigurðsson, Sigurður Baldursson, Brynjólfur Friðriksson, Birkir Freysson og Guðmundur Halldórsson. Mynd: Hugrún Pétursdóttir.
Halldór Maríasson, Stefán Jósefsson, Guðmundur Valtýsson, Benedikt Blöndal, Magnús Sigurðsson, Sigurður Baldursson, Brynjólfur Friðriksson, Birkir Freysson og Guðmundur Halldórsson. Mynd: Hugrún Pétursdóttir.

Loks náði Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps að halda árshátíð sína eftir tvo Covid-takmarkandi vetur en síðasta hátíð þar á undan fór fram í janúar 2020. Samkvæmt venju var samkoman haldin í Húnaveri sl. laugardag og var vel sótt.

Meðal atriða á dagskrá kvöldsins var að heiðra þá félaga sem átt höfðu merkisafmæli frá síðustu árshátíð kórsins. „Við höfum gert þetta í mörg ár, að gleðja félagana ef þeir hafa átt stórafmæli en við vorum með síðustu árshátíð okkar 18. janúar 2020 en þetta er gert til gamans að veita þeim smá viðurkenningu sem átt hafa stórafmæli. Þá miðum við við 50 og eldri. Nú erum við með þrjú ár undir og hefur safnast saman og þess vegna er hópurinn svona stór núna. Í þessum hópi eru sex sem urðu sjötugir á þessu tímabili,“ segir Guðmundur Valtýsson, einn kórfélaga. „Það er gaman að þessu og fólki þykir vænt um að við metum þetta svona við félagana.“

En hvernig skyldi ganga að endurnýja hópinn?
„Það er ekki svo slæmt, hefur stundum verið verra. Það eru að koma ungir menn núna en við, þessir sjötugu, ætlum að halda áfram lengi enn,“ segir Guðmundur kampakátur.

„Við héldum þessa hátíð á laugardagskvöldið, matarveisla og skínandi góð hátíð. Það hafa verið um 140 manns sem mættu. Það var ýmislegt til skemmtunar, grín og mikill kórsöngur, sungum líklega tólf lög. Einnig kom fulltrúi frá Rökkurkórnum, Valborg Hjálmarsdóttir, og flutti okkur góðan pistil. Sá kór er ekki starfandi núna en hefur verið okkar gestir í mörg ár og við buðum þeim að koma og taka þátt í þessu með okkur sem þau gerðu vel. Svo var þarna skínandi hljómsveit úr Skagafirði, Norðlensku molarnir.“

Guðmundur segir ýmislegt vera á döfinni en framundan eru mikil tímamót hjá kórnum þegar heil öld verður liðin síðan hann hóf starfsemi. „Við erum að veltast í því núna að nálgast 100 ára afmæli kórsins, sem verður árið 2025. Það nálgast ískyggilega og erum við farnir að velta því fyrir okkur og búa okkur undir mikil hátíðarhöld þá,“ segir Guðmundur. Ef litið er nær þá segir hann að í vetur er stefnt á suðurferð og ýmislegt verður gert í nærumhverfinu sem auglýst verður síðar.

Hér fyrir neðan má heyra brot af söng kórsins sem Margrét Grétarsdóttir tók upp.

 

Posted by Margrét Grétarsdóttir on Sunnudagur, 15. janúar 2023

 

 

Posted by Margrét Grétarsdóttir on Sunnudagur, 15. janúar 2023

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir