Leikfélag Sauðárkróks frumsýnir Á svið við upphaf Sæluviku

Leikarar í hlutverkum sínum í gamanleiknum Á svið. Myndir Gunnhildur Gísladóttir.
Leikarar í hlutverkum sínum í gamanleiknum Á svið. Myndir Gunnhildur Gísladóttir.

Næstkomandi sunnudag hefst Sæluvika Skagfirðinga með allri sinni dýrð og samkvæmt hefð frumsýnir Leikfélag Sauðárkróks sitt leikrit um kvöldið. Að þessu sinni varð gamanleikurinn Á svið fyrir valinu eftir Rick Abbot í þýðingu Guðjóns Ólafssonar. Feykir sendi Sigurlaugu Dóru Ingimundardóttur, formanns félagsins, nokkrar spurningar og forvitnaðist um verkið.

„Við duttum ofan á þetta leikrit þegar við vorum að velja leikrit. Við höfum verið að sýna mikið af försum og frumfluttum leikritum og langaði að breyta aðeins til. Þetta er gamanleikrit en samt aðeins öðruvísi en við erum vön að taka,“ segir Sigurlaug.

Leikstjórinn er Ingrid Jónsdóttir sem nú leikstýrir hjá félaginu í fjórða skiptið og segir Sigurlaug að samstarfið hafi gengið vel. „Æfingatímabilið hefur gengið mjög vel, erum með flottan hóp bæði innan sviðs sem utan og allir verið duglegir og lausnamiðaðir að sinna sínu. Góður andi í leikhópnum sem skiptir mjög miklu máli.“

Hvað hefur verið skemmtilegast í þessu ferli?
„Hvað allt hefur gengið vel og hvað hópurinn er frábær. Einnig skemmtilegt að sjá sýninguna þróast milli æfinga því hún er skemmtileg en líka snúin.“ Leikfélag Sauðárkróks hefur svo árum skiptir sett upp tvö leikrit á ári og segir formaðurinn það hafa gengið upp enda vel skipað góðu fólki. „Já, það hefur gengið ótrúlega vel og væri ekki hægt ef leikfélagið væri ekki svona ótrúlega ríkt að hæfileikaríku og skemmtilegu fólki sem er endalaust tilbúið að taka þátt aftur og aftur og gefa mikið af frítíma sínum. Það eru oftast 30-40 manns sem koma að hverri sýningu með einhverjum þætti bæði sem leikarar og svo líka öll vinnan baksviðs sem margir gera sér ekki grein fyrir hvað er mikil. Einnig gengur þetta vel því að leikhúsgestir eru duglegir að mæta, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur því án áhorfenda er ekki leikhús.“

Hvað geturðu sagt mér um það leikrit ?

Leikarar og hluti starfsfólks

„Þetta er leikrit um leikhóp sem er að setja upp leikrit, fyrsti og annar þáttur er æfing á verkinu og þar er ýmislegt sem kemur upp á. Í þriðja þætti er svo komið að frumsýningu og þá ætti nú allt að vera löngu tilbúið en eins og við vitum getur allt gerst á frumsýningum t.d. gæti höfundunum dottið í hug að gera eitthvað.“

Nú er stutt í frumsýningu og þá tilvalið að spyrja við hverju leikhúsgestir megi búast.
„Leikhúsgestir mega búast við skemmtilegri sýningu og það sem er líka spennandi að þetta verður pínu öðruvísi heldur fólk á kannski von á sem er það sem er svo skemmtilegt við leikhúslífið það eru allir þessir leikhústöfrar.“

Sigurlaug vill í lokin hvetja fólk til að drífa sig að panta á sýninguna og fara í leikhús um leið og byrjað er. „Stundum heyrum við að fólk hafi ætlað sér að fara en svo fer frestunarhjólið á stað, mæli með að drífa sig bara strax því sófinn heima fer ekki neitt. Svo vil ég gefa öllum sem vinna með okkur innan LS hrós fyrir frábært starf og áhorfandanum fyrir komuna.“

Miðasala er hafin á Sæluvikuleikritið Á svið og er hægt að panta miða í síma 8499434 en einnig er hægt að senda skilaboð á Facebook-síðu Leikfélagsins.

„Við viljum biðja fólk að hringja og láta miðasölu vita ef forföll verða. Einnig viljum við vekja athygli á því að í sýningunni er notuð strobe ljós nokkrum sinnum,“ segir Sigurlaug en það eru ljós sem blikka mjög ört og geta valdið óþægindum í einhverjum tilvikum. „Hlökkum til að sjá ykkur í leikhúsinu!“

Frumsýning sunnudaginn 30. apríl kl; 20:00

  1. sýning þriðjudaginn 2. maí kl; 20:00
  2. sýning miðvikudaginn 3. maí kl: 20:00
  3. sýning föstudaginn 5. maí kl: 20:00
  4. sýning laugardaginn 6. maí kl: 16:00
  5. sýning sunnudaginn 7. maí kl: 17:00
  6. sýning þriðjudaginn 9. maí kl: 20:00
  7. sýning miðvikudaginn 10. maí kl: 20:00
  8. sýning föstudaginn 12. maí kl: 20:00

Lokasýning sunnudaginn 14. maí kl: 20:00

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir