Ljóðakvöld í Gránu á sunnudagskvöldið

Glöggir lesendur Sjónhornsins veittu því eftirtekt að dagsetningu vantaði í auglýsingu um ljóðakvöld sem verður haldið í Gránu, Aðalgötu 21 á Sauðárkróki, nk. sunnudagskvöld kl. 20:00. Fram koma Ingunn Snædal, Gísli Þór Ólafsson, Eyþór Árnason og Sigurður Hansen sem lesa munu upp eigin ljóð og segja frá sínum skáldskap. Húsið opnar 19:30. Aðgangseyrir er 1500 krónur og miðar eingöngu seldir við innganginn.

Ingunn Snædal er fædd á Egilsstöðum en ólst upp á Jökuldal. Fyrsta ljóðabók hennar, Á heitu malbiki, kom út hjá höfundi 1995. Önnur bók hennar, Guðlausir menn – hugleiðingar um jökulvatn og ást, kom út 2006 hjá bókaforlaginu Bjarti. Bókin fékk Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Gísli Þór Ólafsson (Gillon) er tónlistarmaður og ljóðskáld og býr á Sauðárkróki. Hann hefur gefið út sjö ljóðabækur og fjórar hljómplötur. Hann spilar á bassa í hljómsveitinni Contalgen funeral og ljóð eftir hann hafa birst í tímaritinu Stína og í Tímariti Máls og menningar. Hans nýjasta verk er ljóðabókin Svartuggar sem kom út sl. haust.

Eyþór Árnason frá Uppsölum í Akrahreppi, er menntaður leikari, starfaði sem sviðsstjóri hjá Stöð 2 og nú sem sviðsstjóri í Hörpu. Eyþór hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2009 fyrir fyrstu ljóðabók sína, Hundgá úr annarri sveit.  

Sigurður Hansen fæddist á Sauðárkróki 1939, sonur Friðriks Hansen kennara og skálds. Lögreglumaður á Sauðárkróki, síðar loðdýrabóndi í Kringlumýri í Blönduhlíð og nú listabóndi. Hann hefur sent frá sér ljóðabækurnar Feykjur 2001 og Glóðir sem kom út í haust. Sigurður var valinn Maður ársins 2019 hjá lesendum Feykis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir