Skagfirsku tónlistarmennirnir ungu Atli Dagur og Haukur Sindri gefa út nýtt lag

Út er komið nýtt lag Breaking out frá tónlistardúettinum Azepct, sem þeir Atli Dagur Stefánsson og Haukur Sindri Karlsson glæða lífi. Lagið er seinasti singullinn af fyrstu plötu þeirra félaga sem mun koma út seinna í sumar.

„Lagið er gerólíkt því sem við höfum verið að gera en við höldum að þetta muni falla þvílíkt vel í mannskapinn svona rétt fyrir sumarið. Lagið er samblanda af trappi sem hefur verið mikið þema hjá okkur í Azepct, og rokki,“ segir Atli Dagur. Hvort þær tvær stefnur eigi vel saman segir hann það kannski ekki endilega augljóst. En lagið hefur fengið frábærar viðtökur hjá öllum þeim sem heyrt hafa og er það von drengjanna að það haldi áfram þegar lagið hefur loks komið út.

„Lagið var samið, eins og platan öll, í bílskúrnum heima á Hólaveginum og var í raun samið í smá panikki þar sem okkur vantaði enn eitt lag á plötuna og örfáir dagar til stefnu. Lagið varð til á u.þ.b. tveimur tímum og varð strax lang-uppáhaldslagið okkar af plötunni. Lagið heitir Breaking out og er því titillag plötunnar.“

Þessa dagana eru þeir Atli Dagur og Haukur Sindri mjög uppteknir en Haukur er að leggja lokahönd á Bachelors verkefnið sitt í Music Production við RMC í Kaupmannahöfn.

Atli er á fullu að vinna í öðru tónlistarverkefni sem hann vonast til að hefjist seinna í sumar en áður hyggst hann fara með það í Músíktilraunir í lok maí. Hann segir allan frítíma sinn fara í að æfa fyrir þær. Einnig er fótboltinn að hefjast á ný og þar er markmaðurinn Atli Dagur ásamt félögum sínum á fullu við að gera liðið klárt fyrir komandi átök í 3. deildinni í sumar.

„Það er síðan margt planað hjá okkur fyrir sumarið en Haukur hyggst flytja á Krókinn í sumar og við munum halda áfram að vinna að fullt af nýrri tónlist saman. Það sem stendur þó helst upp úr er útgáfupartý sem okkur langar til að halda samhliða útgáfu plötunnar okkar en ef að afléttingar sóttvarna ganga eftir munum við reyna að halda stórt útgáfupartý einhversstaðar í Skagafirðinum.“

Atli segir að eftir sumarið munu leiðir þeirra félaga liggja til Bretlands, í sitthvorn tónlistarskólann í London. Haukur í Royal College of Music, að taka mastersgráðu í kvikmyndatónlist, en hann komst þar inn í desember sl. og fékk að auki rausnarlegan skólastyrk. Atli hins vegar fer í Institute of Contemporary music performance þar sem hann tekur bachelorsgráðu í Songwriting eða lagasmíðum.

HÉR er hægt að nálgast nýjasta lagið á Spotify.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir