Ungir sem pínu eldri gefa út tónlist

Það er talsverð gróska í skagfirsku tónlistarlífi þessar vikurnar og nokkrir flytjendur að smella nýjum lögum á Spottann og jafnvel víðar. Feykir tók saman smá yfirlit yfir flóruna eða í það minnsta það sem rak á fjörurnar.

Í vikunni var sagt frá útgáfu Malenar Áskelsdóttur en hún sendi nýverið frá sér lagið Please Don't Go og er með annað lag í vinnslu. Þá styttist í að VALDIS sendi frá sér sitt fjórða lag á árinu en í vor gaf hún út hið stórfína Hold On To Our Love. Í sumar kom svo frá henni lagið Fake Friends og nú í haust sendi hún frá sér Get Better sem hefur verið að spóka sig á Vinsældalista Rásar 2. Fjórða lag hennar, Maze, kemur út nú í lok október.

Sigvaldi Helgi gaf um mitt sumar út lagið Gleym mér ei og Blankiflur (Inga Birna) sendi stuttu áður frá sér lagið Runner Up en það var annað lagið sem hún gefur út undir hatti Blankiflur. Nýtt lag er væntanlegt í byrjun nóvember. Þá er kominn út fimm laga diskur, Tíminn flýgur, með Róberti Óttarssyni og Guðmundi Ragnarssyni ásamt Helga Sæmundi og fæst hann í öllum betri búðum Króksins auk þess sem hægt er að finna þá félaga á Spottanum. Nánar verður fjallað um þessa útgáfu síðar.

Nýverið kom út lítil tveggja laga 7" með nýjum lögum eftir Gísla Þór Ólafsson (Gillon). Feykir hafði samband við þann góða dreng sem sagði lögin nefnast Lukkuklukkur og Á hárréttum tíma. Að gefa út á vínyl hefur verið draumur Gísla frá unga aldri og ekki spillir fyrir að vínyllinn er í sókn þessi misserin. Auk vínylútgáfunnar má finna smáskífuna á Spotify. Um er að ræða örlítinn smjörþef af fimmtu sólóplötu Gillons, sem nú er í vinnslu með félaga hans úr Contalgen Funeral, Sigfúsi Arnari Benediktssyni. Tekið er upp í Stúdíó Benmen. „Á plötunni verða níu lög og er útgáfa fyrirhuguð í apríl á næsta ári. Gefið verður út á vínyl og á Spotify,“ segir Gísli Þór.

Þá náði Feykir í skottið á Sæþóri Má Hinrikssyni í Danssveit Dósa sem hefur verið að vinna að upptökum á laginu Dúddírarírey upp á síðkastið. Hann var spurður um tilurð lagsins. „Ég og Guðmar Freyr Magnússon eigum texta og lag en lagið er kynning á skrautlegum manni og er með grípandi viðlagi. Lagið er tekið upp í Stúdíó Benmen. Ég samdi viðlagið í baði en við Guðmar sömdum erindin, brúnna og textann síðan að sumbli á Íbishóli,“ segir Sæþór. Arnar Freyr spilar á píanó og harmonikku í laginu, Alex Már á bassa, Eysteinn sér um hammond og bakrödd, Jóhann Daði bertrommur og Sæþór spilar á gítar og syngur. Feykir fékk að hlýða á demó af laginu og getur kvittað fyrir að það límist á heilann. 

Í gærmorgun sendi Feykir fyrirspurn á Hauk Sindra Karlsson og spurði hvort hann og Atli Dagur, sem skipa dúettinn Azpect, væru á útgáfubuxunum. Þarna hittist vel á því þeir höfðu fyrr um morguninn sett lagið Gave Me Shit To Lose á Spottann. „Heyrðu já; lagið var unnið í sumar og er fyrsta smáskífan af væntanlegri plötu sem kemur út í lok janúar,“ segir Haukur Sindri. „Við vörðum öllu sumrinu í vinnu þessara plötu í bílskúrnum hans Atla og eiga eftir að koma út tvö lög til viðbótar í millitíðinni. Boðskap lagsins get ég ekki farið nánar útí þar sem að Atli samdi textann, ég prodúsaði það bara.“ Auk þess að semja textann bjó Atli til laglínuna en saman byggðu þeir félagar grunninn. 

Eflaust vantar eitthvað í upptalninguna og þá um að gera að senda póst á oli@feykir.is ef tónlistarfólk vill kynna nýtt efni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir