2.500 sumarstörf fyrir námsmenn

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra. Mynd af stjornarradid.is.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra. Mynd af stjornarradid.is.

Fjölbreytt sumarnám og sumarstörf verða í boði fyrir ungt fólk og atvinnuleitendur í sumar, sem lið í aðgerðum stjórnvalda til þess að stuðla að virkni og framtíðarsókn fyrir íslenskt atvinnulíf. Stjórnvöld ætla að ná til þess hóps námsmanna sem ekki fær starf eða aðgang að öðru úrræði í sumar og munu verja tæpum 2,4 milljörðum kr. í átaksverkefni til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn.

Á heimasíðu stjórnarráðsins kemur fram að markmið átaksins sé að til verði um 2.500 tímabundin störf fyrir námsmenn, 18 ára og eldri, í samvinnu við opinberar stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök. Hverjum nýjum námsmanni sem ráðinn er inn með úrræðinu fylgir styrkur sem nemur fullum dagvinnulaunum samkvæmt gildandi kjarasamningum, en mest að hámarki tekjutengdra atvinnuleysisbóta, allt að 472 þúsund kr. á mánuði auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð. Ráðningartímabilið er allt að tveir og hálfur mánuður.

Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra segir að Covid-19 faraldurinn hafi haft mikil áhrif á námsmenn, ekki bara á möguleika þeirra á að mæta í skólann heldur einnig á möguleika þeirra á sumarstarfi. „Það er mjög mikilvægt að sem flestir námsmenn fái starf í sumar, en þar fá þeir verðmæta reynslu ásamt því að skila verðmætum inn í hagkerfið. Ég hvet opinbera aðila, sveitarfélög og félagasamtök til að nýta þetta úrræði og ráða námsmenn til starfa í sumar,” segir hann.

350 námsmenn fá styrk til nýsköpunar
Nýsköpunarsjóður námsmanna úthlutaði nýverið 311 milljónum kr. til að sporna við atvinnuleysi og styðja við nýsköpun nemenda. Markmið sjóðsins er að gefa háskólum, rannsóknastofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða námsmenn í grunnnámi og námi á meistarastigi við háskóla til sumarvinnu að rannsókna- og þróunarverkefnum. Að þessu sinni hlutu 206 verkefni styrk, og eru því 351 nemendur skráðir til leiks í alls 1037 mannmánuði.

„Kappsmál okkar nú er að stuðla að virkni fólks, nýsköpun og vexti. Það er mannauður og hugvit sem mun leggja grunninn að framtíðarhagsæld okkar. Það er allra hagur að tíminn nýtist til góðra verka og aðgerðir stjórnvalda miðast við það – að mæta fjölbreyttum hópi sem vill nýta sumarið til að bæta við sig þekkingu og reynslu,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Sjá nánar HÉR

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir