Af mannheimum og veðurguðum

Ekki eru öll kurl komin til grafar eftir fárviðrið sem skall á landinu í síðustu viku. Enn eru íbúar á Norðurlandi, hvar höggið var þyngst, að kljást við truflanir í raforkukerfinu, lagfæra skemmdir á munum og búnaði og bregðast við tjóni vegna rekstrarstöðvunar. Ljóst er að afleiðingarnar eru miklar og víðtækar. Raforkukerfið brást og aðrir innviðir, eins og fjarskiptakerfið, fóru í kjölfarið sömu leið. Það er staðreynd að mikil almannahætta skapaðist á stóru svæði hjá fjölda fólks um alltof langan tíma. Björgunarsveitir og aðrir viðbragðsaðilar unnu engu að síður magnað þrekvirki og það er þeim að þakka að ekki fór verr.

Æðruleysi gagnvart náttúruöflunum er nauðsynlegt á stundum sem þessum enda nokkuð rótgróið í þjóðarsálinni. En í mannheimum er eðlilegt að spurt sé hvað fór úrskeiðis og hvernig er hægt að gera úrbætur á því. Vonbrigði fólks og jafnvel reiði er skiljanleg. Það fór of margt úrskeiðis sem varað hafði verið við og það er hægt að gera miklu betur til að standa af sér viðlíka storma. Af viðbrögðum ráðamanna síðustu daga má ráða að víðtækur skilningur er á því að við óbreytt ástand verður ekki unað.

Orðum fylgi efndir
Með því að draga fram hvar mistökin og veikleikarnir liggja er líklegra að það takist að gera nauðsynlegar úrbætur hratt og vel. Ríkisstjórnin hefur brugðist skjótt við til þessa og sett á fót átakshóp sem skila á tillögum í mars 2020 um úrbætur á innviðum í framhaldi af fárviðrinu. Mikilvægt er að hópurinn leggi vel við hlustir og skilji það sem íbúar, sveitastjórnir og aðrir hagaðilar hafa fram að færa. Vandinn er heldur ekki bundinn við Norðurland. Veikleikar eru í mikilvægum kerfum um land allt fyrir utan höfuðborgarsvæðið.

Þeir sem til þekkja hafa sagt að brýnt sé að hraða mjög allri uppbyggingu flutnings- og dreifikerfisins, fjölga varaaflsstöðvum og tengja smávirkjanir betur inn á kerfið þar sem því verður við komið. Samhliða blasir við að uppfæra þarf fjarskiptakerfið þannig það virki óháð öðrum kerfum. En erfiðara er í að komast en um að tala.

Djúpstæður byggðavandi
Fram hefur komið gagnrýni á hvað viðbúnaður dreifi- og flutningsfyrirtækja raforku var takmarkaður. Vissulega var gripið til margvíslegra ráðstafana, til að mynda með því að flytja aukabúnað og mannskap norður þegar ljóst var í hvað stefndi. En þarna liggur einmitt vandinn.

Á það hefur verið bent undanfarin ár að störfum hafi fækkað mjög og búnaður tekinn niður á starfsstöðvum stofnana og opinberra fyrirtækja víðs vegar um landið. Ein afleiðing af því hafi verið að fámennir vinnuflokkar glímdu við fordæmalaus og erfið verkefni á of stóru svæði. Aukabúnaður og mannskapur hafi skilað sér seint á svæðið sökum óveðursins og ófullnægjandi upplýsingar borist til og frá svæðinu sem hafi torveldað yfirsýn og stjórnun. Hér skal látið ósagt að hversu miklu leyti þessi gagnrýni er réttmæt en þetta er kunnuglegt stef sem hefur heyrst víða áður. Þetta er raunsönn lýsing á samfélagslegri þróun.

Undanfarin ár og áratugi hefur opinberum störfum í grunnþjónustu fækkað víða á landsbyggðinni á sama tíma og miðlæg stjórnsýsla á höfuðborgarsvæðinu hefur vaxið fiskur um hrygg. Afleiðingin er sú að ákvarðanir um mikilvæga hagsmuni íbúa á landsbyggðinni eru teknar of langt í burtu af stjórnendum sem geta ekki, þrátt fyrir velvilja, sett sig inn í aðstæður á hverjum stað fyrir sig. Staðbundin reynsla, þekking og geta til að bregðast við erfiðu ástandi hverfur þaðan sem hennar er einmitt mest þörf þegar mikið liggur við.

Þessari þróun verður að snúa við og færa meira ákvörðunarvald aftur heim í hérað. Öðruvísi verður fullnægjandi viðbúnaði til að mæta margvíslegum áskorunum ekki við komið.  

Svifasein stjórnsýsla og hamlandi regluverk
Nátengt vandanum sem fylgir fjarlægri stjórnsýslu er ósveigjanlegt og flókið regluverk sem gildir um allar ákvarðanir um framkvæmdir og uppbyggingu mikilvægra innviða. Breytir þá engu hvort um að ræða vegamál, raforkukerfi eða fjarskiptanet. Framkvæmdaferlið er ekki eingöngu tímafrekt og kostnaðarsamt heldur getur það stöðvast nánast hvar sem er innan stjórnsýslunnar af hverjum sem er og hvenær sem er. Afleiðingin er sú að seint og illa gengur að treysta raforkukerfið, eldgömlum raflínum er ekki skipt út, innleiðing tækninýjunga í fjarskiptamálum dregst á langinn og þúsundir íbúa landsins sitja sólarhringum saman innilokaðir á rafmagnslausum heimilum án hita, símasambands og frétta. Þá er eftirtektarvert hvað þessi vandi er víðtækur um land allt fyrir utan höfuðborgarsvæðið.

Mannanna verkum er hægt að breyta og þessu verður að breyta. Nærtækast væri að skilgreina hvað telst til mikilvægra grunninnviða og breyta lögum á þann hátt að málsmeðferð framkvæmda til uppbyggingar þeirra innviða verði einfölduð, kæruleiðum fækkað og málshraðinn aukinn. Að öðrum kosti er hættan sú að sífellt verði reynt að bregðast við afleiðingum hnignandi byggðarlaga úr fjarlægð af veikum mætti í stað þess að takast á við rót vandans. Vanda sem best verður lýst þannig að aðstöðumunur á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar eykst í stað þess að minnka.

Teitur Björn Einarsson
höfundur er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir