Arkarinn Eva á ferð um Skagafjörð og Húnavatnssýslur

Eva Bryndís Ágústsdóttir. Mynd af Facebooksíðunni Arkarinn Eva.
Eva Bryndís Ágústsdóttir. Mynd af Facebooksíðunni Arkarinn Eva.

Arkarinn Eva, 16 ára stúlka sem þessa dagana er að ganga hringinn í kringum Ísland til styrktar Barnaspítalanum, er nú komin í Skagafjörðinn. Hún leggur af stað frá Varmahlíð í dag og mun ganga í gegnum Blönduós á morgun.

Arkarinn Eva heitir fullu nafni Eva Bryndís Ágústsdóttir. Hún er fyrsta konan til að ganga hringveginn og jafnframt yngst allra til þess. Eva lagði af stað úr Hafnarfirði, sem er heimabær hennar, austur um land í hringferð sína þann 16. júní sl. og hefur nú lagt bæði Suðurlandið og Austurlandið og stóran hluta Norðurlands að baki. Eva gengur um 35 km á dag og mun því ganga í gegnum Blönduós á morgun en svo skemmtilega hittist á að nú stendur einmitt Húnavakan yfir þar og munu vafalaust margir taka á móti henni og slást í för með henni einhvern spotta.

Tilgangur Evu með göngunni er að safna fé fyrir Barnaspítala Hringsins en bróðir Evu, Brynjar Óli, er langveikur með hjartagalla.

Hægt að fylgjast með Evu á samskiptamiðlum, Facebook, Snapchat og Instagram sem "arkarinneva".

Hægt er að leggja málefninu lið með því að leggja inn á bankareikning 0545-14-001153, kennitala 2908022290.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir