Átak í atvinnu- og markaðsmálum í Húnaþingi vestra
Verkefni innan Sóknaráætlunar landshluta á Norðurlandi vestra voru til umræðu á fundi byggðarráðs Húnaþings vestra þann 15. apríl sl. Eitt þeirra verkefna sem samþykkt hefur verið er „Átak í atvinnu- og markaðsmálum í Húnaþingi vestra“.
Ábyrgðaraðili verkefnisins er SSNV en Húnaþing vestra er framkvæmdaaðili. Auk Húnaþings vestra og SSNV eru Kaupfélag Vestur-Húnvetninga, Sláturhús KVH ehf. og Vinnumálastofnun samstarfsaðilar að verkefninu.
Í fundargerð kemur fram að fjárhæð sem kemur til verkefnisins frá verkefnasjóði sóknaráætlunar á Norðurlandi vestra er alls kr. 8.000.000-en heildarkostnaður er áætlaður kr. 15.000.000-. Fyrir liggur að ráða þarf verkefnisstjóra fyrir verkefnið en gert er ráð fyrir að það hefjist í aprílmánuði 2013 og standi í eitt ár.
Byggðarráð samþykkti að verkefnisstjórn verði skipuð þeim Leó Erni Þorleifssyni oddvita, Skúla Þórðarsyni sveitarstjóra, Jóni Óskari Péturssyni framkvæmdastjóra SSNV, Reimari Marteinssyni kaupfélagsstjóra KVH og Magnúsi Frey Jónssyni sláturhússtjóra.
Einnig var samþykkt að að fela oddvita og sveitarstjóra að leggja fram tillögu til verkefnisstjórnar að ráðningu verkefnisstjóra til starfa hið fyrsta.
Elín R. Líndal sat hjá við skipan í verkefnisstjórn og lagði fram eftirfarandi bókun: „Ég lýsi mikilli ánægju með verkefnið Átak í atvinnu- og markaðsmálum í Húnaþingi vestra en lýsi furðu á því að ekki sé talin ástæða til að hafa fulltrúa beggja kynja í verkefnisstjórninni og sit þess vegna hjá við skipan hennar.“