Atvinnuráðgjafar skiluðu um 6 þúsund vinnustundum árið 2009
Húni segir frá því að Atvinnuráðgjafar SSNV atvinnuþróunar skiluðu um 6.000 vinnustundum árið 2009 og fóru flestar vinnustundir í verkefni tengdum menningu/ferðaþjónustu og veitingaþjónustu, þar af voru 42% bein vinna við verkefni. Samtals komu atvinnuráðgjafar að 106 verkefnum. Þetta kom fram á hreppsnefndarfundi Húnavatnshrepps þann 2. febrúar sl. en þeir Jón Óskar Pétursson framkvæmdastjóri SSNV og Stefán Haraldsson starfsmaður atvinnuþróunar mættu á fundinn og kynntu starfsemi SSNV atvinnuþróunar.
Á fundinum gerði Stefán grein fyrri þeim verkefnum sem hann vinnur að, en þau eru 17 og þar af um fimm verkefni sem snúa að aðilum í Húnavatnshreppi. Stærst er Hveravallaverkefnið, en aðstoð hefur verið veitt við gerð rekstraráætlunar og þjónustukönnunar fyrir svæðið. Stefán fór yfir niðurstöður þjónustukönnunarinnar á fundinum og upplýsti að stefnt væri að málþingi um Hveravelli.
Fram kom á fundinum að SSNV atvinnuþróun ætlar að leggja aukna áherslu á að kynna starfsemi atvinnuráðgjafa og óskar eftir meira samstarfi við sveitarfélögin. Þá var einnig rætt um það hvort verið væri að vannýta þjónustu atvinnuþróunar varðandi undirbúningsvinnu vegna gagnavers á svæðinu.