Björgunarkallinn er kona í ár

Sjálfboðaliðar björgunarsveita landsins munu selja neyðarkallinn á flestum þeim stöðum sem almenningur kemur saman á um þessa helgi, svo sem í stórmörkuðum, verslanamiðstöðvum, vínbúðum, bensínstöðvum og víðar. Víða á landsbyggðinni verður einnig gengið í hús en sölunni lýkur á laugardagskvöld. Neyðarkall björgunarsveita er á sama verði og síðustu tvö ár en hann kostar 1500 kr.

Í ár er Neyðarkallinn í gervi björgunarsveitakonu með fyrstu-hjálpar búnað; sjúkratösku og upprúllað teppi. Fyrsta hjálp er eitt af grunnnámskeiðum sem björgunarsveitafólk tekur og er það með öðru sniði en þau skyndihjálparnámskeið sem almenningur þekkir þar sem miðað er við að hlúa geti þurft að sjúklingi í yfir tvo tíma áður en sérhæfðari aðstoð berst.

Að sögn Haraldar Ingólfssonar formanns Skagfirðingasveitar er um mikilvæga fjáröflun að ræða fyrir sveitirnar sem fá meiripartinn af söluandvirðinu í sinn hlut. Vel hefur verið tekið á móti sölufólki undanfarin ár og á Haraldur ekki von á öðru en svo verði einnig núna.

Fleiri fréttir