Blæðandi þjóðvegir vekja litla lukku
Vegfarandi hafði samband við Feyki.is og sagði farir sínar ekki sléttar. Var hann afar ósáttur við ástand vegarins yfir Þverárfjall þar sem slitlagið var löðrandi í olíu. Talsvert hefur borið á þessu ástandi á vegum í sumar, bæði á þjóðvegum og til dæmis hér innan bæjar á Sauðárkróki, en það er veðurblíðan sem er vegunum erfiðust, sól og hiti.
Hafði vegfarandinn áhyggjur af að þetta gæti varla verið gott fyrir bifreiðar og ekki síður mótorhjól, ökuskilyrði hlytu að versna þegar ástand veganna væri með þessum hætti. Þar fyrir utan væri ógaman að standa á klístruðum vegunum ef menn þyrftu að bregða sér út úr bíl eða af baki. Og varla væri þetta sniðugt fyrir blessaða erlendu ferðamennina sem ferðuðust um Ísland á reiðhjólum.
Hann var afar ósáttur við Vegagerðina vegna þessa en datt í hug, svona á léttu nótunum, að kannski væri hugmyndin að nota vegakerfið sem einskonar ísbjarnagildrur. Ísbirnirnir hreinlega festust í slitlaginu ef þeir hættu sér yfir vegina!