Ekki miklar breytingar á tíðni umferðarslysa
Í slysaskýrslu Umferðarstofu sem kynnt var nýlega kemur fram að alvarlegum slysum og banaslysum fækkaði hér á landi á síðasta ári. Sé fjöldi banaslysa síðustu fimm ára borinn saman við næstum fimm ár þar á undan kemur í ljós að fækkunin er 48%. Á síðasta ári létust 9 manns, en á fimm ára tímabili létu 58 manns lífið í umferðinni. Til samanburðar létust 111 fimm árin þar á undan eða frá 2003 til 2007. Varðandi banaslysin er það ánægjuleg staðreynd að enginn ölvaður ökumaður kom við sögu í banaslysum ársins. Er það að í fyrsta sinn í marga áratugi, að mati þeirra sem best þekkja til.
Mjög mikil fækkun varð á slysum þar sem ungir ökumenn komu við sögu, sérstaklega þegar fjöldi þeirra er borinn saman við fjölda slysa árið 2007. Hægt er að skýra það með markvissum aðgerðum, sem felast í fræðslu í framhaldsskólum, eflingu ökukennslu og því að þeir ungu ökumenn sem brjóta ítrekað af sér þurfa að sækja sérstök námskeið og gangast aftur undir bæði skriflegt og verklegt ökupróf.
Svo að við höldum okkur áfram við góðar fréttir þá hafa aldrei eins fá börn slasast í umferðinni eins og árið 2012, sé að minnsta kosti miðað við þann gagnagrunn sem stuðst er við en hann er frá árinu 1986. Ef horft er til heildarfjölda slasaðra og látinna barna undanfarin 10 ár þá kemur í ljós að meðaltalið er 120. Árið 2012 var heildarfjöldi 88, en tekið skal fram að ekkert barn lét lífið, en yngsta fórnarlamb umferðarslyss var 21. árs ökumaður.
Eigi að greina skýringar á fækkun alvarlegustu slysanna á árinu má meðal annars geta aðgerða sveitarfélaga, sem hafa í síauknum mæli lækkað hámarkshraða í íbúðahverfum og við skóla og leikskóla í 30 km/klst. Sú aðgerð ein hefur án efa leitt til mikillar fækkunar alvarlegra slysa. Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að bílar verða sífellt öruggari frá hendi framleiðenda og að ábyrgðartilfinning ökumanna virðist hafa farið vaxandi.
Á því svæði sem áður var Norðurlandskjördæmi vestra hafa tiltölulega litlar breytingar orðið á fjölda slysa milli áranna 2011 til 2012. Fyrra árið urðu 6 alvarleg slys þar sem 8 manns slösuðust, en í fyrra urðu slysin fimm talsins og fimm manns urðu fyrir alvarlegum meiðslum. Þrjú þessara slysa urðu utanbæjar, en tvö í þéttbýli, annað á Hvammstanga, en hitt á Sauðárkróki.
26 slys með litlum meiðslum urðu á svæðinu í fyrra, en voru 22 árið 2011. Á hinn bóginn slösuðust 48 lítið 2012, en voru 50 árið á undan.
Eðlilegt er að fleiri slys verði á þjóðvegum á þessu svæði en víða annars staðar, þar sem mikil umferð er gegnum þetta svæði þegar fólk fer frá Suðurlandi til Norðurlands. Hins vegar hefur öflug og vel þekkt framganga lögreglu á svæðinu vakið verðskuldaða athygli og leitt til aukinnar varkárni ökumanna.
Sigurður Helgason
(Höfundur er sérfræðingur á Umferðarstofu)