Engin beiðni um aðstoð barst lögreglunni á Blönduósi vegna haustshretsins
Vegna frétta um búfjárskaða sökum hausthretsins sem gekk yfir Norðurland þann 10. – 11. sept. sl. þá vill sýslumaðurinn á Blönduósi upplýsa um gang mála í Húnavatnssýslum. Engin beiðni um aðstoð eða önnur tilkynning barst lögreglunni á Blönduósi um alvarlegt ástand búfjár eða önnur atvik þegar hretið gekk yfir né heldur næstu daga á eftir.
„Þann 24. sept. sl. voru lögreglustjórar á Norðurlandi boðaðir á fund daginn eftir með almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Á fundinum kom fram að fyrirhugað væri að halda umfangsmikla leit að búfé á öllu Norðurlandi helgina 28. - 30. sept. sl. og gert var ráð fyrir að ríkisstjórnin myndi leggja út ákv. upphæð til verksins. Fram kom á fundinum að þrír matsmenn höfðu farið um Norðurland á vegum almannavarnanefndar ríkislögreglustjóra til að meta ástandið. Þeir höfðu hitt fyrir svæðisstjóra björgunarsveita, búnaðarráðunauta, bændur, fjallskilastjóra og sveitarstjórnarfólk í umdæmum almannavarna á öllu Norðurlandi. Gert var ráð fyrir skipulagi almannavarna við leitina en verkstjórn myndi verða í höndum svæðisstjórna björgunarsveita og búnaðarráðunauta á hverju svæði.
Þann 27. sept. sl. kom tilkynning frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra um að fyrirhuguð leit og björgun sauðfjár á Norðurlandi ætti að fara fram framangreinda helgi og voru leitarsvæðin tilgreind: Skagafjörður og Þingeyjarsýslur.
Þar sem Húnavatnssýslur voru ekki tilgreindar sem leitarsvæði þá hafði undirritaður þegar samband við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og fékk þau svör að það væri niðurstaða „heimamanna“ að aðstoðar væri ekki þörf í þessu leitarátaki og því hefðu Húnavatnssýslurnar verið felldar út.
Með vísan til þess sem að framan greinir þá þótti ekki ástæða til þess að lýsa yfir almannavarnaástandi í Húnavatnssýslum en hins vegar hafa björgunarsveitarmenn aðstoðað bændur dyggilega við leit að búfé í umdæminu.
Til upplýsingar vill undirritaður geta þess að í almannavarnanefnd Húnavatnssýslna sitja allir sveitarstjórar umdæmisins ásamt undirrituðum og því greið leið að koma upplýsingum um neyðarástand til þeirra eða lögreglunnar á Blönduósi.
Undirritaður hefur ákveðið að kalla fljótlega saman almannavarnanefnd Húnavatnssýslna og helstu aðila sem að þessu ástandi komu.“
Undir þetta ritar Bjarni Stefánsson sýslumaður á Blönduósi.