Erindi um morðbrennuna á Illugastöðum og síðustu aftökuna

Morðbrennan á Illugastöðum 1828 og síðasta aftakan á Íslandi 1830 er erindi sem haldið verður á vegum Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna í Safnaðarheimili Hvammstangakirkju sunnudaginn 26. janúar kl. 14. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir meðan húsrúm leyfir. Hægt verður að kaupa kaffi og kleinur á staðnum og tímaritið Sögu en í því er ítarleg umfjöllun um efnið.

Í erindinu fjallar Eggert Þór Bernharðsson sagnfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands um eitt frægasta og umtalaðasta sakamál Íslandssögunnar, morðbrennuna á Illugastöðum á Vatnsnesi 14. mars 1828.

Einkum verður hugað að atburðarás morðnæturinnar eins og hún birtist í yfirheyrslum Björns Blöndals sýslumanns Húnvetninga yfir því fólki sem eitt vissi hvað gerðist þessa örlagaríku nótt; þeirra Friðriks Sigurðssonar í Katadal, Sigríðar Guðmundsdóttur bústýru á Illugastöðum og Agnesar Magnúsdóttur vinnukonu á sama bæ. Jafnframt verður rætt um síðustu aftökuna á Íslandi sem fór fram á Þrístöpum 12. janúar 1830 þar sem þau Friðrik og Agnes voru tekin af lífi en dauðadómi Sigríðar hafði verið breytt í lífstíðarfangelsi í Kaupmannahöfn.

Að loknu erindinu svarar Eggert Þór spurningum og tekur þátt í umræðum en hann vinnur að rannsókn á lífshlaupi Natans Ketilssonar og samferðafólki hans, morðbrennunni á Illugastöðum 1828, aðdraganda hennar, ástæðum og eftirmálum, refsingum og glæpum í Húnaþingi á fyrstu áratugum 19. aldar, síðustu aftökunni á Íslandi 1830 sem og þeirri mynd sem sameiginlegar eða staðbundnar minningar um Natansmál hafa tekið á sig í tímans rás og hvernig unnið hefur verið með morðmálið.

/fréttatilkynning

Fleiri fréttir