Foreldrar á Vatnsnesi óska eftir heimakennslu barna sinna

Skólabíll við Illugastaði á Vatnsnesi 8. nóvember 2018. Mynd: Hunathing.is
Skólabíll við Illugastaði á Vatnsnesi 8. nóvember 2018. Mynd: Hunathing.is

Á fundi byggðaráðs Húnaþings vestra sem haldinn var þann 10. desember sl. var lagt fram erindi frá skólastjóra Grunnskóla Húnaþings vestra varðandi beiðni foreldra barna á Þorgrímsstöðum og í Saurbæ á Vatnsnesi um greiðslu vegna heimakennslu barnanna.

Ástæða beiðninnar er slæmt ástand vegarins um Vatnsnes og kemur fram í bréfinu að foreldrar eru áhyggjufullir vegna ferðatíma og líðanar barna sinna sem þurfa að eyða upp undir 140 mínútum á dag í skólabíl. Ferðatíminn hefur lengst um a.m.k. 20 mínútur á dag og þrátt fyrir að skólabifreiðin sé vel útbúin og uppfylli allar kröfur sem gerðar eru til slíkra bifreiða kvarti börn undan ógleði og hávaða sem skapast þegar ekið er í hverja holuna á fætur annarri. Í erindinu segir að hávaði sá sem myndist í bílnum við þennan akstur hafi mælst allt að 109 Db og á löngum kafla hafi meðaltal hljóðstyrks mælst 98 Db.  Hættumörk vegna hávaða eru 95 Db.

Í fundargerð segir: „Byggðarráð deilir áhyggjum foreldra af líðan og velferð barnanna sem og lengingu ferðatíma skólabíls.  Byggðarráð telur sig ekki geta samþykkt erindið um greiðslu til foreldra vegna heimakennslu með vísan í reglugerð 531/2009 um heimakennslu á grunnskólastigi. Byggðarráð mun halda áfram að þrýsta á stjórnvöld um úrbætur og breytta forgangsröðun í vegamálum með áherslu á skólaakstursleiðir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir