Forsætisráðherra hafnaði beiðni SSNV um fund

Kristrún Frostadótttir forsætisráðherra. MYND AF ALÞINGI.IS
Kristrún Frostadótttir forsætisráðherra. MYND AF ALÞINGI.IS

Fram kemur í fundargerð stjórnar SSNV (Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra) þann 3. nóvember sl. að forsætisráðherra, Kristrún Frostadóttir, hefði hafnað beiðni samtakanna um fund með stjórn SSNV vegna alvarlegrar stöðu landshlutans og mögulegra aðgerða til að snúa neikvæðri þróun við. Stjórn SSNV hafði beðið um fund með valkyrjunum þremur, Kristrúnu, Þorgerði Katrínu og Ingu Sæland, en ekki hafa borist svör frá utanríkisráðherra og félags- og húsnæðismálaráðherra en forsætisráðuneytið benti aftur á móti á innviðaráðuneyti Eyjólfs Ármannssonar vegna erindisins.

Í fundargerðinni segir að stjórn SSNV harmi „...svar forsætisráðherra og viðbragðsleysi ríkisstjórnarinnar og telur að sú afstaða endurspegli áhugaleysi þeirra á því að takast á við þá alvarlegu stöðu sem uppi er í landshlutanum. Samtökin hafa ítrekað bent á neikvæða þróun íbúafjölda, fækkun starfa, sér í lagi ríkisstarfa, og minnkandi þjónustu á svæðinu. Stjórn SSNV telur því brýnt að stjórnvöld sýni raunverulegan áhuga og vilja til samstarfs og aðgerða.“

Svar sem ég átti alls ekki von á

Feykir spurði Einar E. Einarsson, formann stjórnar SSNV, hvað honum þætti um svar forsætisráðherra. „Ég verð að segja að svarið kom mér verulega á óvart og ekki síst í ljósi þess að forsætisráðherra hefur lagt á það ríka áherslu að eiga gott og náið samtal við fólkið í landinu, meðal annars með því að ganga í hús og hitta fólk. Við sem sitjum í stjórn SSNV erum fulltrúar í sameiginlegu hagsmunafélagi þeirra fjögurra sveitarfélaga sem eru í landshlutanum.

Rétt er líka að hafa í huga að ástæða þess að við óskum eftir fundinum eru áhyggjur okkar af stöðu landhlutans varðandi t.d. hægari fólksfjölgun, slæma stöðu innviða eins og vegakerfisins og þeirrar staðreyndar að þrátt fyrir að ríkisstörfum fjölgi um fleiri hundruð á ári hverju, þá er þeim að fækka í okkar landshluta. Þessi og fleiri atriði vildum við ræða en það er greinilega ekki vilji til þess af hálfu forsætisráðherra, sem er svar sem ég átti alls ekki von á,“ segir Einar E. Einarsson formaður stjórnar Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra.

Fundargerð stjórnar SSNV >

Fleiri fréttir