Frá Samtökum meðlagsgreiðenda

Í fjölmiðlum að undanförnu hefur verið fjallað um fjárhagsaðstoð sveitafélaganna og fjölda þeirra sem þiggja slíka aðstoð.  Þá hefur verið fjallað um greiningu á þeim hópi sem þegið hefur fjárhagsaðstoð út frá ólíkum fjölskyldugerðum. Er fullyrt að einstæðir barnlausir karlmenn skipi stærsta hópinn eða um 3.336 af 7.715 en einstæðar mæður séu sum 2.066 talsins.

Samtök meðlagsgreiðenda vilja koma því á framfæri við fjölmiðla að um eru að ræða rangar tölur sem eru settar fram með villandi hætti. Stærsti hluti þessa einstæðu barnlausu karla eru í reynd einstæðir umgengnisforeldrar með börn á framfæri í gegnum meðlagsgreiðslur og umgengni. Hins vegar eru þeir bókfærðir sem barnlausir einstæðir kalmenn þar sem þeir eru ósýnilegir í bókum hins opinbera og færðir til bókar við almannaskráningu sem barnlausir einstaklingar.

Er ástæða til að vekja athygli á því að ef umgengnisforeldrar fengju aðkomu að velferðarkerfinu sem foreldrar, yrði fjöldi þeirra karlmanna sem sækja um fjárhagsaðstoð miklu meiri. Einnig ber að árétta að þeir umgengnisforeldrar sem fá fjárhagsaðstoð, fá hana sem einstaklingar en ekki sem foreldrar og er því ekki tekið tillit til þess kostnaðar sem felst í að ala upp skilnaðarbarn.

Samtök meðlagsgreiðenda hafa boðað til greiðsluhlés meðlaga í desember til að mótmæla framgöngu sveitafélaganna í garð umgengnisforeldra. Samtökin telja það skýrt brot á 76. gr. stjórnarskrárinnar, -m.t.t. almennu jafnræðisreglunnar, að synja umgengnisforeldrum um fjárhagsaðstoð eða annarri félagsþjónustu á grundvelli þess að þeir séu barnlausir einstaklingar, -jafnvel eftir harkalegar innheimtuaðgerðir Innheimtustofnunar sveitafélaga. Samtökin mótmæla því einnig þeirri framgöngu Innheimtustofnunar að ganga svo langt á ráðstöfunartekjur umgengnisforeldra að þeir geti ekki framfleytt sjálfum sér eða sinnt sínum uppeldisskyldum.

Að framansögðu er ljóst að ábyrgð hvílir á fjölmiðlum að greina rétt frá upplýsingum í fréttum sem varðar fátækt og örbirgð á Íslandi.  Mikilvægt er að fjölmiðlar taki skýrt fram að hlutur umgengnisforeldra í viðskiptum við félagsþjónustu sveitafélagana sé óútskýrður og sé háður þeim takmörkunum sem að ofan greinir

Fleiri fréttir