Fréttaskot úr fortíð á Reykjasafni
Í tilefni af Sögulegri safnahelgi verður opið hús í Reykjasafni, Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna, um helgina.
„Í tilefni hátíðarinnar verðum við með fréttaskot frá forfeðrum okkar úr fortíð. Þetta eru kvikar smámyndir þar sem atvik úr fortíðinni eru klædd í búning nútíma sjónvarpsfrétta,“ segir í fréttatilkynningu frá safninu.
Einnig verður sögusýning um handskrifaða sveitablaðið Gest sem gekk á milli bæja á Ströndum fyrir um hundrað árum síðan. Auk þess verða kynntar við hugmyndir að breytingum á safninu á næstunni.
Opið verður laugardag og sunnudag á milli kl. 12-18. Þess má geta að rúta fer frá Bardúsu á Hvammstanga kl. 13 og mun hún m.a. koma við á Reykjasafni.
Nánari upplýsingar má finna á huggulegthaust.is.