Fullveldi í fyrirrúmi á Hólahátíð um helgina

Mynd: Aðsend
Mynd: Aðsend

Hólahátíð verður haldin á Hólum í Hjaltadal 11. til 12. ágúst. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá með tónleikum, hátíðarsamkomum og hátíðarmessu.

„Hólahátíð er hugsuð sem hátíð fyrir allt kirkjufólk í Hólastifti sem nær frá Hrútafirði allt austur í Álftafjörð,” segir sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup á Hólum. „Það er mikilvægt fyrir kirkjuna að halda hátíðir sem sýna styrk hennar bæði menningarlega og trúarlega.  Kirkjan er mjög víða afar stór hluti af lífi fólks og sérstaklega á landsbyggðinni þar sem gríðarlegur fjöldi fólks hlúir að kirkjum sínum og kirkjustarfi.”  

Hólahátíðin er ávallt fjölsótt og kemur fólk alls staðar að af landinu í eins konar pílagrímaför, enda er gengin pílagrímaganga á laugardeginum eftir Hallgrímsveginum frá Gröf heim að Hólum. Hátíðin hefur alltaf eitthvert megintema og má nefna að árið 2016 var haldið upp á 350 ára afmæli útgáfu Pássíusálmanna með veglegri s sýningu á passíusálmaútgáfum og árið 2017 var minnst 500 ára afmælis siðbótarinnar. Í ár verður 100 ára afmælis fullveldis Íslands minnst. Í því tilefni hafa fermingarbörnum úr nágrenninu verið boðið að semja 8-10 mínútna erindi sem ber yfirskriftina: Hvaða þýðingu hefur fullveldi Íslands fyrir þig?

Kvenskörungurinn á Hólum

Kammersveitin ReykjavíkBarokk mun frumflytja tónleikhús sem fjallar um líf Halldóru Guðbrandsdóttur sem tók ung við búi á Hólum á 17. öld. En slíkt þótti ekki algengt á þeim tíma. „Halldóra var mikill kvenskörungur. Hún missti móður sína ung og tók því við heimilinu og sá um föður sinn til dauðadags,“ segir sr. Solveig Lára. „Eftir að Guðbrandur biskup fékk heilablóðfall árið 1624 annaðist Halldóra bæði hann og sá um alla starfsemi á Hólum.“  

Dagskrá:

Laugardagurinn 11. ágúst

Pílagrímaganga eftir Hallgrímsveginum frá Gröf á Höfðaströnd heim að Hólum.  Lagt af stað frá Grafarkirkju kl. 9:00 og komið heim að Hólum um kl. 16:00.

Kl. 16:00 Endurnýjun skírnarinnar og altarisganga í Hóladómkirkju.

Kl. 17:00 Samkoma í Auðunarstofu: Hvaða þýðingu hefur fullveldi Íslands fyrir þig?

Kl. 19:00  Kvöldverður Undir Byrðunni.

Sunnudagurinn 12. ágúst 

Kl. 11:00 Tónleikhúsið: Bréf Halldóru Guðbrandsdóttur - 1625 -  Tvær konur í flutningi ReykjavíkBarokk.

Kl. 14:00 Hátíðarmessa í Hóladómkirkju.  Sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir sóknarprestur á Fáskrúðsfirði predikar. Kirkjukór Hóladómkirkju syngur. 

Organisti Jóhann Bjarnason.  Tónlist: ReykjavíkBarokk.

-Veislukaffi Undir Byrðunni.

Kl. 16:30 Hátíðasamkoma í Hóladómkirkju. 

Ræðumaður Einar Kr. Guðfinnsson  formaður 100 afmælisnefndar um fullveldi Íslands

Tónlist: ReykjavíkBarokk.

Kl. 20:00 Kvöldmessa í Grafarkirkju á Höfðaströnd.
Prestur sr. Úrsúla Árnadóttir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir