Furða sig á málflutningi framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar

Viðbragðsaðilar á Norðurlandi vestra hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna málflutnings Þórhalls Ólafssonar, framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar, í Kastljósi RÚV þann 16. desember sl. í kjölfar óveðursins sem reið yfir í síðustu viku. Telja þeir það vera forgangsmál allra aðila að tryggja að Tetra-kerfið á landinu öllu virki sem skyldi á ögurstundu.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:
„Undirritaðir viðbragðsaðilar á Norðurlandi vestra lýsa furðu á málflutningi framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar í Kastljósi Sjónvarps þann 16. desember sl., hvað varðar uppitíma Tetra-kerfisins á Norðurlandi vestra. Að mati undirritaðra var ekki hægt að treysta á Tetra-kerfið á Norðurlandi vestra þriðjudaginn 10. og miðvikudaginn 11. desember sl., þegar aftakaveður gekk yfir landið. 

Upplifun viðbragðsaðila á Norðurlandi vestra var á þessu tímabili sú að þegar kerfið var inni væri um að ræða Eyjavirkni (þ.e. að ekki sé samband utan svæðis) og sá tími var margfaldur sá sem framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar gaf upp í ofangreindum Kastljósþætti. Þá er ótalinn sá tími sem Tetra-kerfið lá niðri að öllu leyti í Húnavatnssýslum þegar að varaafl á sendum þar þraut.

Það hlýtur að vera sameiginlegt forgangsmál allra aðila að tryggja það að Tetra-kerfið á landinu öllu virki sem skyldi á ögurstundu.“

Um Tetra má fræðast á heimasíðu Neyðarlínunnar:
„Tetra er stafrænt talstöðvarkerfi með símamöguleika sem er sérsniðið að þörfum viðbragðsaðila þar sem hraði og öryggi skiptir máli. Tetra sem talstöðvarkerfi er mjög öflugt miðstýrt hópfjarskiptakerfi sem stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök eða einstaklingar geta nýtt sér sem stjórntæki fyrir hröð og örugg samskipti milli einstaklinga og hópa ásamt flotastjórnun eða eftirliti með hjálp ferilvöktunar.
Hver Tetra stöð hefur sitt símanúmer sem hægt er að hringja úr og í innan Tetra kerfisins og einnig yfir í önnur símkerfi innanlands.Tetra stöðvar má einnig nota utan þjónustusvæðis kerfisins í beinu sambandi (DMO) við aðrar Tetra stöðvar með sömu talhópa.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir