Góður árangur Helgu Margrétar í fimmtarþraut

Helga Margrét Þorsteinsdóttir íþróttamaður USVH sem æfir með Ármanni, keppti í sinni fyrstu fimmtarþraut innanhúss á þessu ári í gær. Helga fékk 4.158 stig og sigraði þrautina sem fór fram i Växjö í Svíþjóð en hennar besti árangur er síðan í fyrra 4.205 stig.

Í fyrstu greininni í gær jafnaði Helga sitt persónulega met í 60m grindahlaupi sem hún setti um þarsíðustu helgi á Reykjavíkurleikunum þegar hún hljóp á 8.73 sek.

Í næstu grein gekk mjög vel framan af hjá Helgu og stökk hún leikandi létt yfir 1.68m en stífnaði síðan og tók aðeins of mikið á því á næstu hæð sem var 1.71m og komst ekki yfir. Helga á best 1.76m í hástökki.

Næsta grein var kúluvarp og þar gekk illa. Helga varpaði kúlunni bara 13.25m sem var langt undir getu þar sem helgina áður varpaði hún 14.53m og á best 14.87m. Í upphitun varpaði Helga á milli 14.50-15.00m þannig að hér tók hún alltof mikið á sem kom niður á tækninni.

Langstökkið var síðan allt í lagi 5.56m en hún átti miklu lengra stökk ógilt en hennar besti árangur er 5.85m

Síðasta greinin var svo 800m og þar var Helga alveg við sitt best þegar hún hljóp á 2.14.48m sem er mjög gott.

Vésteinn Hafsteinsson þjálfari Helgu segir að þessi þraut hafi verið hugsuð sem upphitun fyrir miklu stærri þraut sem verður eftir þrjár vikur í Norrköping í Svíþjóð. Það er sænska meistaramótið.

-Ef allt gengur upp þar mun hún bæta Íslandsmetið vel þar, segir Vésteinn en Helga sem kunnugt er var fyrsti Íslendingurinn að ná í verðlaun á HM unglinga í Canada í sumar þegar hún varð þriðja í sjöþraut.

Vésteinn segir að Helga hafi hrjáðst af meiðslum undanfarin ár en sé nú á beinu brautinni í þeim efnum og hefur gífurlega hæfileika til þess að komast í fremstu röð sjöþrautarkvenna í heiminum í framtíðinn, en hún er núna aðeins 19 ára gömul.

Fleiri fréttir