Gott ástand í Húnaþingi vestra

Frá Hvammstanga. Mynd:FE
Frá Hvammstanga. Mynd:FE

Íbúum í Húnaþingi vestra hefur fjölgað um 22 frá síðastliðnum áramótum og í sveitarfélaginu er minnst fækkun barna í dreifbýli á landinu. Þetta kemur fram í viðtali við Ragnheiði Jónu Ingimarsdóttur, sveitarstjóra Húnaþings vestra, í Morgunblaðinu í dag. Talsvert er um að verið sé að byggja íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu, jafnt á Hvammstanga sem í dreifbýlinu og athygli hefur vakið að ungt fólk er að taka við búskap á allmörgum bæjum sem endurspeglast í þjónustu sem snýr að ungu fólki s.s. skólum og íþróttaaðstöðu.

Íbúar sveitarfélagsins eru nú 1.024 og segir Ragnheiður að undanfarið hafi verið húsnæðisskortur í sveitarfélaginu sem komi til af því að atvinnuástand er gott. „Landbúnaður, ferðaþjónusta, önnur þjónusta og ýmis starfsemi í tengslum við landbúnaðinn er undirstaðan í atvinnulífinu hér og þar hafa góðir hlutir verið að gerast að undanförnu. Því er óhætt að segja að atvinnulíf, þjónusta, menning og mannlíf sé gott í sveitarfélaginu og því sækir fólk hingað,“ segir Ragnheiður.  Hún segir rekstur sveitarfélagsins vera í góðu jafnvægi og ágætt svigrúm sé til þess að sinna öllum helstu lögboðnum verkefnum. Þá sé velferðarþjónusta traust í sveitarfélaginu sem gerði mögulegt að taka á móti hópi flóttamanna frá Sýrlandi sl. vor og hefur vel tekist til með aðlögun þeirra að samfélaginu.

Ragnheiður kom til starfa sem sveitarstjóri í Húnaþingi vestra þann 15. ágúst sl. og hefur hún sjálf ekki farið varhluta af húsnæðisskortinum á svæðinu því ekkert húsnæði var að hafa á Hvammstanga fyrir nýja sveitarstjórann er hún flutti þangað. „Ég er svo sem ekki á flæðiskeri stödd. Bý um þessar mundir í fínni íbúð frammi í Miðfirði, sem er um það bil 15 kílómetra frá Hvammstanga og ek þaðan til vinnu, sem þykir ekki mikið miðað við vegalengdir á höfuðborgarsvæðinu. Svo er ég alin upp í sveit og líkar vel í því umhverfi,“ segir Ragnheiður Jóna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir