Gult ástand og mikil hálka á vegum

Nú er allvíða slæmt veður á landinu en Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun fyrir Suðurland, Faxaflóa, Breiðafjörð, Vestfirði, Strandir og Norðurland vestra og Miðhálendi. Gert er ráð fyrir batnandi veðri síðdegis og heldur rólegra veður á morgun, sunnudag. Suðvestan hvassviðri eða stormur er á Norðurlandi vestra með éljum og skafrenningi. Lélegt skyggni og erfið akstursskilyrði. Holtavörðuheiði lokuð vegna þverunar flutningabíls.

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að ekki sé hægt að segja til um hvenær vegurinn opnar á ný en búist er við að aðgerðir taki töluverðan tíma. Hjáleið er um Laxárdalsheiði nr. 59 og Bröttubrekku nr. 60 en mikil hálka er á leiðinni.

Veðurspá fyrir Strandir og Norðurland vestra
Suðvestan 15-23 og él, fer að lægja síðdegis og léttir til. Kólnandi, frost 2 til 8 stig í kvöld. Gengur í norðan 13-18 með snjókomu eða éljum í fyrramálið, en mun hægari og úrkomulítið í innsveitum.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Á mánudag:
Norðaustan 13-18 og snjókoma NV-til um morguninn, annars mun hægari og þurrt. Frost 0 til 8 stig. Vaxandi norðaustanátt síðdegis, víða stormur og él um kvöldið, en slydda eða snjókoma SA-lands.

Á þriðjudag:
Norðaustan hvassviðri eða stormur og slydda eða snjókoma um landið N- og A-vert, annars þurrt að kalla. Hiti um frostmark, en 1 til 5 stig við S-ströndina.

Á miðvikudag:
Norðaustanátt með snjókomu N-lands, en slyddu eða rigningu á A-landi. Hiti 0 til 5 stig S- og A-lands, annars vægt frost.

Á fimmtudag:
Austlæg átt og dálítil él, en slydda eða snjókoma með köflum S-til á landinu. Hiti um frostmark.

Á föstudag:
Austlæg átt og slydda eða snjókoma með köflum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir