Heilsueflandi móttökur settar á fót um allt land

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að ráðstafa 200 milljónum króna af fjárlögum næsta árs til að koma á fót heilsueflandi móttökum um allt land innan heilsugæslunnar. Framlagið kemur til viðbótar 130 milljónum króna sem ráðherra hefur ákveðið að verja til að efla þjónustu heimahjúkrunar.

Móttökurnar verða ætlaðar eldra fólki og einstaklingum með fjölþætt eða langvinn heilsufarsvandamál. Markmiðið að tryggja þessum hópi þverfaglega og heildstæða heilbrigðisþjónustu og innleiða skipulagða heilsuvernd fyrir aldraða.

Heilbrigðisráðherra segir að eftir því sem hlutverk heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar fólks í heilbrigðisþjónustunni styrkist, þeim mun betur geti hún sinnt heilsueflingu og forvörnum gagnvart skilgreindum hópum eins og hér um ræðir. „Heilbrigðisþjónusta við aldraða er að mínu mati forgangsmál þar sem hægt er að gera miklu betur. Öldruðum fjölgar og þjónustuþörfin eykst. Þörfin fyrir fjölbreytt úrræði og aukna þjónustu við fólk í heimahúsum er augljós og þær aðgerðir sem hér eru boðaðar eru tvímælalaust í allra þágu“ segir Svandís Svavarsdóttir.

Sjá nánar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir