Heimismenn halda austur

Vetrarstarf Heimismanna er að hefjast, og á vefsíðu þeirra segir að byrjað verði á því sem ekki tókst í vor, að fara í tónleikaferð austur á land. Ferðinni er heitið til Eskifjarðar og Egilsstaða, laugardaginn 19. október næstkomandi. Á Eskifirði verður sungið í kirkju- og menningarmiðstöðinni kl. 15:30, og svo kl. 20:30 í Egilsstaðakirkju.

Fyrir hlé verður sígild karlakóratónlist á dagskránni, eftir hlé er skipt um takt og fær kórinn Guðrúnu Gunnarsdóttur til liðs við sig, ásamt hljómsveit sem skipuð er meðlimum úr kórnum. Þessi söngdagskrá var flutt alls sex sinnum í fyrravetur og vor við góða aðsókn og undirtektir.

Miðar verða seldir við innganginn á báðum stöðum.

Fleiri fréttir