Íbúar á Vatnsnesi hyggja á aðgerðir

Eins og sjá má er vegurinn ekki árennilegur þessa dagana. Myndina tók Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir í dag.
Eins og sjá má er vegurinn ekki árennilegur þessa dagana. Myndina tók Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir í dag.

Á fundi byggðarráðs Húnaþings vestra sl. mánudag kynnti Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir sem búsett er á Sauðadalsá á Vatnsnesi, aðgerðir sem íbúar þar hyggjast standa fyrir í þeim tilgangi að berjast fyrir vegabótum á Vatnsnesvegi.

Eins og kunnugt er eru íbúar orðnir langþreyttir á ástandinu í vegamálum á nesinu sem er vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Fyrirhugað er að setja upp skilti við fjölförnustu staðina þar sem heimamenn óska eftir aðstoð ferðamanna við að ýta á stjórnvöld að laga veginn. Einnig verða ferðamenn hvattir til að taka myndir af þekktum ferðamannaperlum og merkja á samfélagsmiðlum með myllumerkinu #vegur711 og skrifa texta við myndina sem segir frá baráttu íbúa og ástandi vegarins. 

Feykir hafði samband við Guðrúnu og spurðist fyrir um fyrirhugaðar aðgerðir. „Eins og staðan er í dag ætlum við að byrja á þessum aðgerðum og sjá hversu langt þær koma til með að ganga. Við gerum okkur ekki grein fyrir því eins og staðan er í dag. Það eru margir ferðamenn sem fara um svæðið okkar á hverjum degi og því gætu þetta orðið tugir mynda sem myndu rata inn á samfélagsmiðla á degi hverjum,“ sagði Guðrún.Það þýðir lítið að ætla að halda bílunum hreinum þurfi að aka Vatnsnesveg reglulega. Mynd: GÓS

Hún segir að staðan á veginum hafi verið þolanleg í sumar þar sem þurrt hafi verið í veðri og vegurinn því haldið sér vel. „En þegar það kom rigningarkafli í byrjun ágúst fór vegurinn mjög illa. Vegagerðin brást fljótt við og reyndi eftir fremsta megni að laga veginn en þar sem það hafa verið rigningakaflar nokkuð þétt síðan þá hefur ekki tekist að koma veginum í almennilegt ástand,“ segir Guðrún og bætir við að í vætutíðinni nú fari hann snarversnandi dag frá degi.

Aðspurð um hvort eitthvað hafi verið unnið í veginum í sumar segir Guðrún að svo hafi ekki verið þar sem hann var í nokkuð góðu standi. „Það voru tekin upp einbreið ræsi og gerð tvíbreið. Svo standa yfir framkvæmdir við Tjarnarárgil sem við fögnum enda sá vegkafli alltaf verið stórhættulegur að vetri til.“

Í fundargerð byggðarráðs kemur fram að ráðið tekur undir áhyggjur íbúa af vegamálum og og ítrekar mikilvægi þess að vegur um Vatnsnes komist komist inn á samgönguáætlun við endurskoðun hennar nú í haust. Einnig vill byggðarráð árétta að vegur 711 var settur í forgang í samgöngu- og innviðaáætlun SSNV sem samþykkt var sl. vor.   

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir